Flugmálaáætlun 1992--1995

94. fundur
Miðvikudaginn 04. mars 1992, kl. 13:43:00 (3957)

     Hrafnkell A. Jónsson :
    Virðulegi forseti. Okkur Austfirðingum þykir mikið til koma hversu myndarlega hefur verið staðið að uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar og það verður ekki of oft minnt á það að Egilsstaðaflugvöllur er ein af lífæðum fjórðungsins og því mikið atriði að vel sé staðið að lokafrágangi þeirra miklu framkvæmda sem þar standa. En vegna þess hvernig umræður gengu fram hér í gær sé ég fulla ástæðu til þess að minna á það að þáverandi þingmaður Austurlands Sverrir Hermannsson og hv. þm. Egill Jónsson höfðu forgöngu um að koma framkvæmdum við Egilsstaðaflugvöll í þann farveg sem þær eru í dag með öflugum stuðningi hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, þáv. samgrh. Ég minni á þetta vegna þess að mér þótti sem nokkrir hv. þm. sem um þetta mál ræddu hér í gær hefðu tilhneigingu til þess að skreyta sig með þessum fjöðrum og ég sé í sjálfu sér ekki að það sé nein ástæða til þess að menn geri það.
    Það kemur fram í endurskoðaðri flugmálaáætlun að áformað er að fresta uppsetningu tækjabúnaðar við Egilsstaðaflugvöll og vinna fyrst og fremst að því að leggja á hann bundið slitlag á þessu ári. Ég hvet hæstv. samgrh. til að taka þetta til vandlegrar athugunar og vænti þess að samgn. og hæstv. ráðherra muni sjá að athuguðu máli að þessu er ekki skynsamlega varið á þennan hátt. Það er búið að leggja í gífurlega miklar fjárfestingar og það hlýtur að skipta máli að þær fari að skila arði sem allra fyrst. Því endurtek ég áskorun mína til hæstv. ráðherra og samgn. að taka þetta mál til nýrrar athugunar sem leiði þá til þeirrar niðurstöðu að hægt verði að taka nýjan Egilsstaðaflugvöll í notkun á næsta hausti.