Flugmálaáætlun 1992--1995

94. fundur
Miðvikudaginn 04. mars 1992, kl. 13:51:00 (3959)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er haldið áfram að reyna að skapa einhverja ólund yfir því að illa sé staðið að framkvæmdum á Egilsstöðum. Hv. síðasti ræðumaður, sem ég sé í blaði hans í dag að ruglar saman Látra-Björgu og Látrabjargi sem má kannski segja að sé ekki mikill ruglingur út af fyrir sig af framsóknarmanni, er að reyna að gera því skóna hér núna að ástæða sé til þess að ég gefi skýra yfirlýsingu um það hver verði helstu áhersluatriði í flugmálum að tveim árum liðnum. Ég hef ekki fram að þessu vitað til þess að þingmenn réðust sérstaklega að ráðherra fyrir það að hann hefði eitthvað opið í þeim áætlunum sem væru lagðar fyrir þingið og með þeim hætti gæfi þingmönnum kost á því að hafa meira svigrúm en oft hefur verið í þingmálum og hélt satt að segja að menn mundu taka þessu vel. Ég held að það sé ekki nema eðlilegt að þegar ný ríkisstjórn sest að völdum, þá reyni menn að athuga sinn gang. Ég hef lýst því yfir að það er stefnumörkun í samgöngumálum. Við munum horfa til hluta með öðrum hætti en verið hefur. Við munum reyna að nýta fjármagnið betur með því að líta til allra þátta samgöngumála hvort sem við tölum um vegi, flugvelli eða hafnir. En hitt er algjör misskilningur að þeir framsóknarmenn setji okkur einhverjar skorður hér með það með hvaða hætti við högum okkar vinnubrögðum. Það er ekki rétt.
    Mér þykir hitt líka mjög merkilegt að hér skuli standa upp hver þingmaðurinn á fætur öðrum og tala um það að illa sé farið með Egilsstaði í flugmálaáætlun eins og hún liggur nú fyrir. Við getum auðvitað reynt að athuga það sérstaklega hvaða staðir það eru sem þessir ágætu þingmenn eru að biðja um að verði teknir út vegna þess að fjárlög eru búin að ákveða rammann fyrir flugmálaáætlun á þessu ári og það liggur alveg ljóst fyrir eins og samningamálin standa nú á milli aðila vinnumarkaðarins og eins og þjóðarbúskapur okkar stendur nú rétt í augnablikinu að það kemur ekki til greina að fara að setja inn í innanlandsflugið einhverjar hækkanir sem ganga beint út í verðlagið. Þá kemur heldur ekki til greina að leggja þessar hækkanir á innanlandsflugið vegna þess að það hefur verið rekið með miklum halla á þessu ári. Það sem hv. þm. eru að koma hér með er venjulegt yfirklór. Nema þeir þá treysti sér til þess að benda á það hvar þeir vilji helst draga úr. Bar mér að skilja þingmann þeirra Vestfirðinga svo að honum þyki ofrausn að til Ísafjarðar fari 13,7 millj.? Skyldi hann kannski vera óánægður yfir því að 1 millj. eigi að fara á Gjögur og 4,3 millj. á Hólmavík? Var hann að skora á mig og samgn. að færa þessa fjármuni til og setja þá niður á Egilsstaði? Eða bar mér að skilja hv. þm. Jón Kristjánsson svo að hann vilji enn höggva í þann knérunn sem er flugvöllurinn á Höfn í Hornafirði en það er gert ráð fyrir því að 10 millj. kr. renni þangað? Eða var verið að tala um það að peningarnir yrðu til úr engu og það ætti að halda áfram að eyða hér peningum án þess að þeir væru nokkurs staðar til? Var það sá boðskapur sem þessir hv. þm. fluttu?
    Við getum talað tæpitungulaust um það hvernig skilið var við í samgöngumálunum. Við getum lagt fram lista t.d. um alla þá löngu runu af fyrirheitum sem búið var að gefa í hafnamálunum sem við sjáum ekki fyrir endann á einu sinni á þessu ári þótt meira fé hafi verið varið til hafnamála en áður. En það er ekki aðeins hér. Það er í öllum málum sem upp koma sem hv. stjórnarandstæðingar koma fram með sömu lummuna: Af hverju tekur ríkisstjórnin ekki lán hér, af hverju ekki þar? En þvert á móti hefur þessi ríkisstjórn ákveðið að reyna að standa öðruvísi að verki, reyna að nýta peningana betur og reyna með þeim hætti að komast lengra áleiðis þegar til framtíðarinnar er litið. Það kemur á hinn bóginn auðvitað eðlilega til kasta samgn. eins og venja er á þinginu ef einstakir nefndarmenn hafa áhyggjur af einhverjum sérstökum atriðum í sambandi við flugmálaáætlun, hvort hægt sé með einhverjum hætti að liðka þar fyrir, og get ég í því efni nefnt sérstaklega hvort svigrúm kunni að vera til þess að setja upp ljós á Egilsstaðaflugvelli. Það er mál sem verður að athuga sérstaklega í samgn. og ekki hef ég á móti því að reyna að greiða fyrir slíku. Það þýðir á hinn bóginn ekki að vera að koma hingað upp með þessar taumlausu kvartanir, þetta taumlausa kvein út af stað sem verið er að gera virkilega góð skil, sem er að fá virkilegar bætur í sínum samgöngumálum, sem er að fá einhvern allra besta flugvöll til sín og sem á það virkilega skilið vegna þess að það hefur verið sívaxandi straumur ferðamanna einmitt á þennan stað, á Egilsstaði. En þó við reynum núna að gera þeim flugvelli góð skil og ætlum þeim flugvelli mikið á þessu ári og næsta ári, þá hlýtur þingið um leið, þeir mörgu nýju þingmenn sem hingað eru komnir inn og ýmsir aðrir, að óska eftir því að fá nokkurn tíma til þess að átta sig á heildarmyndinni. Það hefur líka áhrif á það þegar við lítum á flugmálaáætlun til langs tíma að óhjákvæmilegt var að taka nokkurt fé af henni vegna hinnar nýju flugstjórnarmiðstöðvar og í ljósi þess þurfum við einnig að taka til endurskoðunar þau markmið sem við höfum sett okkur.