Flugmálaáætlun 1992--1995

94. fundur
Miðvikudaginn 04. mars 1992, kl. 13:57:00 (3960)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Það kemur mér sannarlega mjög á óvart hvernig hæstv. samgrh. tekur á þessu máli. Hann reynir að drepa málinu á dreif, talar um að við höfum verið með óraunhæfa kröfugerð hér úr þessum ræðustóli. Ég var ekki með neina kröfugerð. Ég var ánægður með framgang mála á Egilsstaðaflugvelli að öðru leyti en því að ég vil að fundin verði ráð og samgn. athugi það til að taka flugvöllinn í notkun á þessu ári. Það var nú öll kröfugerðin. Og síðan vil ég fá yfirlýsingar um það hvort staðið verði við þá stefnumörkun sem var um lengingu. En hæstv. samgrh. vill ekki svara því vegna þess að hann er ekki tilbúinn til að standa við þá stefnumörkun. Það er greinilegt. Hann vill tala um Látrabjarg og Látra-Björgu í staðinn. En hann vill ekki tala um 2.400 m flugvöll á Egilsstöðum. Það vill nú svo til að í þessu plaggi er fjármunum skipt allt til ársins 1995 á flesta staði nema flugvöllinn á Egilsstöðum. Og það er skilið eftir óráðstafað fé í allverulegum mæli og síðan segir hæstv. samgrh. að ég sé að biðja um peninga af himnum inn í þessa áætlun. Ég er ekki að biðja um það. Ég var ekki með kröfugerð í þessari umræðu í gær. Ég sagði þvert á móti í ræðu minni að það væri tiltölulega vel staðið að flugmálum og hefði orðið þar bylting. En ég vil fá að heyra það hvort við þessa stefnumörkun um varavöll verður staðið því að þetta er stórmál og þetta mál er litið mjög alvarlegum augum. Hins vegar eru Austfirðingar ánægðir með framkvæmdir á Egilsstaðaflugvelli og það er alveg út í hött að halda því fram að ég sé að efna til einhverrar ólundar hér vegna framkvæmda á Egilsstaðaflugvelli. Það er útúrsnúningur hjá hæstv. samgrh. og gerður til þess að komast hjá því að svara spurningum.