Flugmálaáætlun 1992--1995

94. fundur
Miðvikudaginn 04. mars 1992, kl. 14:27:00 (3965)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vil taka það skýrt fram svo ekki valdi misskilningi að ég hef ekki hugsað mér að biðja um peninga af himnum. Og einnig hitt atriðið: Við framsóknarmenn teljum okkur hafa um það tillögurétt eins og aðrir sem hér eru hvað gert er í þessum málaflokki.
    Ég hygg að í framtíðinni verði sú þróun í flugvallarmálum að flugvellirnir verði færri og stærri og bætt vegakerfi mun vissulega stuðla að því að sumir flugvellir sem nú eru notaðir til verulegra fólksflutninga verða minna notaðir í framtíðinni. Stykkishólmur er gott dæmi um það hvað bættar samgöngur á landi þýða í þeim efnum að menn breyta sínum ferðavenjum yfir í það að aka fremur til höfuðborgarinnar en að fljúga þangað.
    Hv. 3. þm. Suðurl. ræddi um varaflugvöll á Íslandi, varaflugvöll sem gerði það að verkum að þær flugvélar sem fljúga yfir hafið gætu tekið áhættuna af því að hafa það lítið eldsneyti að þær mundu lenda hér á öðrum hvorum vellinum, Keflavíkurflugvelli eða slíkum varaflugvelli. Ég tel að þarna sé um mjög stórt mál að ræða, svo stórt að ég vil hvetja til þess að menn ræði það í rólegri yfirvegun, án allra átaka á milli kjördæma, hvar skynsamlegast sé að slíkur völlur sé staðsettur. Ég tel að Aðaldalsvöllurinn eða Sauðárkróksvöllur hljóti að vera inni í þeirri mynd eins og kom fram í máli hv. 3. þm. Suðurl.
    Þegar ég segi þetta vil ég undirstrika að ég er jafnviss um það að flug frá útlöndum verður á miklu fleiri velli á Íslandi. Að sjálfsögðu verður flug fá útlöndum á Egilsstaðaflugvöll. Það er ekkert vafaatriði. Það verður flug frá útlöndum á Akureyrarflugvöll. ( Gripið fram í: Og er nú þegar.) Og er nú þegar. En flugvöllur af þeirri stærð sem verið var að tala um og á að vera varaflugvöllur sem tryggir það að lokist Keflavíkurflugvöllur þá sé alltaf undantekningarlaust hægt að lenda á hinum staðnum, slíkur flugvöllur verður ekki nema á einum stað á Íslandi og það gengur ekki að Alþingi Íslendinga ætli að fara að líta á slíkt mál út frá einhverjum átökum á milli kjördæma.
    Ég ætla þá aftur á móti að víkja að þeirri stöðu sem hin ýmsu landsvæði eru í miðað við það flug sem þangað er og vil víkja að bls. 3 í þessari áætlun.
    Þar kemur fram að í fyrsta flokki áætlanaflugvalla eru að sjálfsögðu Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur, Alexandersflugvöllur við Sauðárkrók og Húsavíkurflugvöllur. Þeir flugvellir eru alls góðs maklegir sem hér eru upp taldir og það er gleðiefni að við skulum eiga svo marga flugvelli í þessum flokki. En hitt er umhugsunarefni að í flokki númer tvö eru flugvellir sem mjög mikið er flogið á, þó þeir e.t.v. geti ekki nokkurn tímann, sumir þeirra, náð því að komast í fyrsta flokk vegna aðstæðna, þ.e. þeir eru staðsettir á stöðum sem bjóða ekki upp á það rými til aðflugs að þeir geti komist í fyrsta flokk. Ég vil trúa því samt að Hornafjarðarflugvöllur geti komist í fyrsta flokk en Ísafjarðarflugvöllur og Vestmannaeyjaflugvöllur munu trúlega hvorugur nokkurn tímann ná því af tæknilegum ástæðum.
    Ég held þess vegna að það hljóti að vera eðlilegt að þeirri spurningu sé varpað til hæstv. samgrh.: Hvaða athuganir fara fram í Ísafjarðarsýslum á nýju flugvallarstæði sem gerir það að verkum að flug til þessa svæðis verði öruggara en það er í dag og flugtíðni geti orðið meiri? Ég veit að af hálfu flugmálastjóra hefur verið gerð athugun á Sveinseyri við Dýrafjörð um nýtt flugvallarstæði. Þar hafa farið fram vissar grunnathuganir og ég vil varpa þeirri spurningu til hæstv. samgrh. hvort þær athuganir séu komnar á það stig að einhver ákvarðanataka liggi fyrir og eins ef menn telja það flugvallarstæði ekki það besta sem völ er á, hvort hugmyndir séu um eitthvert annað flugvallarstæði.
    Eins og allir hér inni vita er stefnt að því að gera Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýslu að heilsárssamgöngusvæði á landi sem gerir það að verkum að það er fyrst og fremst öryggið sem skiptir máli, en ekki hitt hvort það er örlítið lengri vegalengd að fara á flugvöll. Ég tel það mjög brýnt fyrir þetta svæði að eignast flugvöll í þeim gæðaflokki sem talað er um á bls. 3 í þáltill. og mér vitanlega eru ekki aðrir kostir betri en sá möguleiki að staðsetja flugvöll á Sveinseyri.
    Ég get ekki amast við því þó að hér sé hafður liður til leiðréttinga og brýnna verkefna, þar sé hafður liður með verulegum fjármunum. Mér finnst að það sé æskilegt að þingið fái þetta ekki niðurnjörvaðra en það er og það er líka mjög óæskilegt, ef niðurskurður á framkvæmdafé á sér stað, að verið sé að ráðast á hluti sem búið er að setja í áætlun og miklar væntingar eru orðnar um. En það breytir ekki því að stefnumörkun fram í tímann verður að eiga sér stað og það er mjög brýnt að sú stefnumörkun eigi sér stað hvað Vestfirði varðar í þessum efnum.
    Ég vil trúa því að í framtíðinni muni Íslendingar flytja mikið magn sjávarafurða með flugi til útlanda. Því verður vafalaust í mjög ríkum mæli keyrt á aðalflugvöll landsins, Keflavíkurflugvöll, en það má gera ráð fyrir því engu að síður að þeir staðir sem hafa aðstöðu til þess að senda sjávarafurðir með flugi beint út, hvort sem þeir eru á Austurlandi eða á Norðurlandi eða á Vestfjörðum, hafi styrkt með því móti verulega samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á viðkomandi svæði. Í framtíðinni mun það mestu ráða um það hvar fiski verður landað á Íslandi, hvaða staðir greiða hæst verð fyrir þann fisk sem kemur á land. Og því

eins geta fiskvinnslufyrirtækin greitt hátt verð fyrir fiskinn að þau hafi aðstöðu til þess að keppa á jafnréttisgrundvelli, m.a. þeim jafnréttisgrundvelli sem felst í því að geta sent fisk með flugi og þá skiptir náttúrlega verulegu máli hvort það þarf að keyra með þann fisk þvert yfir landið eða hvort hægt er að koma honum í flug á flugvelli sem er þar innan eðlilegrar fjarlægðar.
    Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa lengra mál um þennan þátt en ég vil aftur á móti segja það varðandi Reykjavíkurflugvöll að ég tel að það sé mjög brýnt að Alþingi Íslendinga hafi vissu fyrir því hvort það sé sæmileg sátt um það hér í borginni að þessi flugvöllur sé þar sem hann er því það hlýtur að vera forsendan fyrir því hvort skynsamlegt sé að fara þar í stóruppbyggingu. Ég er hlynntur því að hér sé flugvöllur sem farþegar utan af landi geta komist á beint til Reykjavíkur en stundum, þegar umræðan hefur verið heit um það hvort það eigi að taka þetta svæði undir byggingar eða ekki, hef ég spurt sjálfan mig að því hvort ekki sé brýnt að slík ákvörðun liggi fyrir til langs tíma. --- Ég sé að hv. 3. þm. Reykv. hefur nú hafið fundarhöld hér í salnum og ég vil ekki trufla þau og læt því máli mínu lokið.