Flugmálaáætlun 1992--1995

94. fundur
Miðvikudaginn 04. mars 1992, kl. 15:07:00 (3968)

     Hrafnkell A. Jónsson :
    Herra forseti. Eins og margir landsbyggðarmenn er ég mikill áhugamaður um flugmál vegna þess að ég þarf að nota flugvélar svo mikið. Þess vegna rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds þegar hv. 7. þm. Reykv., Magnús Jónsson, lýsti öryggismálum á Reykjavíkurflugvelli. Ég veit ekki hvort ég þori austur aftur að þessum upplýsingum fengnum.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon --- er hann ekki staddur hér í salnum? Það er miður. Ég vona að hann komi í salinn áður en ég lýk máli mínu því ég þyrfti aðeins að víkja orði til hans. Þegar rædd eru mál sem snúa að flugmálaáætlun, þá er þar um tvo þætti að ræða. --- Þar er hv. þm. Steingrímur Sigfússon kominn í salinn. Hann vék orðum til mín áðan og fór að vísu miðlungi rétt með en það verður að hafa það. Ég er ekki þingvanur þannig að ég kann kannski ekki að haga orðum mínum þannig að skiljist en ég skil þó hv. þm. þannig að þegar hann mærir verk sín sem fyrrv. samgrh. þá er það vegna þess að hann hefur ekki einasta staðið að því að móta stefnu heldur hefur hann unnið kófsveittur við að framkvæma verkið og greitt fyrir úr eigin vasa. Mér þótti full ástæða eins og mál höfðu skipast í umræðum hér í gærkvöld að minna á það hverjir höfðu forgöngu um þau verkefni sem er verið að vinna á Egilsstöðum. Ég ætla ekki að gera lítið úr hlut hv. annarra þingmanna Austurl. eða annarra þingmanna sem að því unnu, en mér finnst út af fyrir sig ástæðulaust annað en að rifja það upp þannig að ekki fari á milli mála hverjir höfðu um þetta forgöngu. Það var í samgönguráðherratíð hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar sem stefnan var mótuð í þessum málum. Og ég vona að með því sé ég út af fyrir sig ekki að gera neitt lítið úr ágætu framlagi hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem samgrh. Ég vona að hann taki það ekki þannig. Það var ekki til þess ætlast.
    En ef ég vík síðan að umræðuefninu um flugmálaáætlun, þá virðist mér að þetta snúist um tvo þætti. Sumum kann að finnast annar hluturinn snúast um skammtímasjónarmið, þ.e. með hvaða hætti þessari miklu framkvæmd á Egilsstöðum er komið í gagnið. Mér finnst það skipta verulegu máli. Það kom hér fram hjá hv. þm. Árna Johnsen að þetta væri verk upp á um 700 millj. kr., ef ég tók rétt eftir. Mér finnst það skipta máli hvort þetta verk fer að skila okkur rentum fyrr en seinna. Og þess vegna endurtek ég áskorun mína til hæstv. samgrh. og samgn. að leita allra leiða til að Egilsstaðaflugvöllur megi sem fyrst fara að skila okkur því sem til er ætlast. Í mínum huga skiptir það ekki máli hvorum megin ég geng inn í flugstöðina á Egilsstöðum eða hvorum megin ég geng út þegar ég fer um borð í flugvélarnar. Það skiptir mig hins vegar máli að þessi framkvæmd komist í gagnið þannig að flugöryggi á Egilsstöðum verði meira en það er í dag. Þess vegna tel ég að ef þess er kostur að koma vellinum í notkun á þessu ári, þá eigi að vinna að því. En mér er farið eins og hv. 2. þm. Vestf. að sækja ekki peninga til himna. Hins vegar tók ég orð hans þannig áðan að Alþingi gæti ákveðið það með lagasetningu að það væru tveir flugvellir á Íslandi sem ávallt væri hægt að lenda á. Ég hefði nú haldið í einfeldni minni að það væri við guð almáttugan að eiga hvernig viðraði. Ég held satt að segja að við getum aldrei sett niður, þó að það sé bundið í lögum frá Alþingi, þá get ég ekki ímyndað mér að við tryggjum það nokkurn tíma með lagasetningu að við verðum undantekningarlaust með flugvöll sem hægt er að lenda á hvernig sem viðrar.
    Það sem snýr síðan að framtíðarstefnumótun í flugmálum snýst að mínum dómi ekki í aðalatriðum um flugsamgöngur innan lands. Eins og þróunin er í dag get ég ekki séð betur en flugsamgöngur og uppbygging flugvalla snúist um það hvernig við getum treyst atvinnulífið á hinum einstöku landsvæðum með vel búnum flugvöllum. Þess vegna ætla ég ekki að fara í þrætubók við hv. þm. um hvaða flugvöllur það er sem kallast varaflugvöllur. Í mínum huga skiptir það meginmáli að Egilsstaðaflugvöllur ásamt nokkrum öðrum flugvöllum hér á landi séu þannig búnir að þeir geti tekið við millilandaflugi, að það sé hægt stunda þar bæði farþegaflug og fraktflug og ég met það þannig, eins og kom mjög vel fram hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni og ég þarf svo sem ekki að endurtaka, að í framtíðinni snýst þetta um möguleikana á því að flytja afurðir okkar frá landinu með beinu flugi og vonandi sem flesta farþega til landsins þannig að þetta geti treyst atvinnulífið í viðkomandi byggðarlögum. Þess vegna tel ég að þegar menn meta framtíðaruppbyggingu Egilsstaðaflugvallar þá eigi það ekki endilega að snúast um það hvort hann heitir varaflugvöllur sem er öryggisflugvöllur í sem allra fæstum tilfellum, heldur eigi það að snúast um það hvort flugvöllurinn getur sinnt því hlutverki að þjóna okkur sem ferðumst með vélum sem farþegar en ekki síður sem fraktvöllur á milli Íslands og annarra landa.
    Við Austfirðingar horfum mikið til þess, ekkert síður en aðrir landsmenn sem sjá fram á minnkandi afla og meiri áherslu sem þarf að leggja á að fá sem hæst verð fyrir afurðirnar, að við getum komið okkar afurðum beint á markað til annarra landa milliliðalaust og þar horfum við á flugið. Þess vegna vil ég enn og aftur ítreka það að ef til framtíðar er litið, þá eru það möguleikar Egilsstaðaflugvallar til þess að þjóna sem farþega- og fraktflugvöllur vegna samskipta við næstu þjóðir sem skipta máli, ekki hvort hann heitir á pappírunum varaflugvöllur fyrir millilandaflug.
    Ég held að Egilsstaðaflugvöllur og Austfirðingar með sinn flugvöll þar séu í sömu sporum og Vestfirðingar sérstaklega og kannski Norðlendingar líka, þ.e. við þurfum að fá flughöfn og flugvelli sem þjóna atvinnulífinu. Við megum ekki einblína á farþegaflugið eins og það sé upphaf og endir allra hluta.