Flugmálaáætlun 1992--1995

94. fundur
Miðvikudaginn 04. mars 1992, kl. 15:25:00 (3971)


     Árni Johnsen :
    Herra forseti. Það varð fræg setning til í flugheiminum þegar ágætur maður, Adolf Björnsson, fór á sínum tíma í framboð í Þingeyjarsýslu, ef ég man rétt, og stefndi auðvitað að gulli og grænum skógum. Heimamenn báðu um flugvöll og hann sagði við samferðamann sinn sem var bílstjóri hjá honum: ,,Skrifaðu flugvöll.`` Og síðan er þetta kunn setning, ,,skrifaðu flugvöll`` og stundum notuð til gamans í heimi stjórnmálamanna.
    Það er auðvitað kappsmál fyrir allar byggðir að hafa góðan flugvöll og góðar samgöngur. En í umræðunni um varaflugvöll held ég að það sé ástæða til þess að velta aðeins fyrir sér skilgreiningunni á þörfinni. Varaflugvöll fyrir hvað? Það er mikill stigsmunur á þeirri þjónustu sem þarf að veita eftir flugvélastærðum og gerðum og í fyrirsjáanlegri framtíð er ekkert sem bendir til þess að Íslendingar þurfi eða geti átt kost á því að veita þjónustu nema í mjög litlum mæli stærstu flugvélategundum. Á undanförnum árum hefur að vísu verið gerð eins konar tilraun í gegnum Keflavíkurflugvöll til þess að flytja út afurðir til Japans og annarra fjarlægra landa en sú tilraun fór að nokkru út um þúfur af ýmsum ástæðum og ekki er séð fram á að sá þráður verði aftur upp tekinn þó hann hafi vissulega verið mjög merkilegur og mikilvægur og skilað tekjum inn í þjóðarbúið beint til ríkissjóðs ekki síður en til þeirra aðila sem reyndu þar að afla nýrra markaða fyrir sínar afurðir, bæði fisk og landbúnaðarafurðir.

    Það er í einhverjum slíkum mæli auðvitað sem menn horfa til þess að eignast fullkomnasta varaflugvöll sem er í rauninni 3.000 m flugvöllur og nú er hlaupið þarna á milli talna, 2.700 m og 2400 m á Egilsstöðum. Þyngstu vélar geta lent á 2.700 m braut en ekki 2.400 m braut sem um er talað og þar sker á milli þannig að í rauninni er dæmið ekki hugsað til enda þó það sé vissulega ástæða til þess að fylgja því eftir. Það hlýtur að koma að því fyrr en seinna að Egilsstaðavöllur verði byggður til enda með þeim kröfum sem eru gerðar til uppbyggingarinnar í dag og það er auðvitað fyrir stærstu og þyngstu vélar.
    Það kom fram í máli hv. þm. Jóns Kristjánssonar að mitt mál varðandi lengd brautar á Egilsstöðum væri á misskilningi byggt. Ég vil undirstrika að það er ekki á misskilningi byggt. Þegar ég nefni að flugbraut nái út í fljótið, suður fyrir veg eins og heimamenn mundu segja, þá er þess að geta að fljótið er í rauninni ekki alveg markað við þá bakka sem mannsins auga sér því að vatnasvæði nær talsvert inn í landið og það er þar sem er dýrasti kostur við endurnýjun á jarðvegsfyllingunni. Það er mikil vatnagangur í því landi sem ætlað er undir flugvöll í lengingu og (Gripið fram í.) ja, nú vill svo til, hv. frammíkallandi, að það hefur verið gerð lítils háttar könnun á jarðvegsaðstöðu sunnan vegar við Egilsstaðaflugvöll og þar er mikill vatnagangur eins og sérfræðingar segja.
    Lenging um 700 metra nær að fljótinu, það er rétt. Það er gert ráð fyrir að hægt sé að koma vegi við endann án þess að hann fari út í fljótið en það nær að fljótinu. ( Gripið fram í: Það er vitað um það.) Og það er rétt, það er rétt. Það er enginn misskilningur þarna að baki. Hitt er að nefna að, eins og kom fram í máli hv. þm. Jóns Kristjánssonar, er alls ekki lokið fullnaðarhönnun á þeim 700 m, sem við er miðað í undirbyggingu, til viðbótar þessum 2.000 m. Það er rétt lokið frumhönnun, sem sumir mundu kalla skot út í loftið, og kannski af þessum ástæðum ekki síst er ástæða til þess að skoða það ofan í kjölinn hvað sé hagkvæmt og skynsamlegt vegna þess að 2.000 m braut með fullbúnum flugvelli þjónar öllum kröfum sem við sjáum fram á að þurfi að sinna um allnokkurt skeið. Sama gerir Akureyrarflugvöllur, sama geta Húsavíkur- eða Aðaldalsflugvöllur og Sauðárkróksflugvöllur gert með einhverjum tilkostnaði. En á sama tíma og menn binda sig svo fast í umræðuna um varaflugvellina, þá er mikil þörf og brýn fyrir uppbyggingu víða á landinu þó svo að sums staðar sé að draga úr farþegafjölda og vöruflutningum flugleiðis. Það er alveg augljóst að í náinni framtíð hljóta augun að beinast fyrst og fremst að Vestfjörðum um uppbyggingu. Þar er erfiðast um aðstöðu, þar er mest einangrunin samgöngulega og með tilkomu nýrra jarðganga er ástæða til að byggja þar nýja aðstöðu sem nýtist best við það mikla mannvirki sem er verið að vinna að.
    Það eru nefnilega nokkuð augljós þessi svæði sem þörfin er fyrir að endurbyggja innan lands. Það eru Vestfirðir, það er Siglufjörður, sem er sérdæmi, og það er Reykjavíkurflugvöllur. Þetta eru þau þrjú svæði sem brýnast er að taka ákvörðun um inn í framtíðina, mál sem eru augljós vandamál sem þarf að leysa en ekki er búið að taka ákvörðun um að framkvæma á næstu tveimur árum. Á Siglufirði t.d. hefur ekki einu sinni verið gerð frumkönnun á því hvað kostar eða hvernig á að leysa endurbyggingu þess flugvallar.
    Sem dæmi um samdrátt í flugi á ákveðnum völlum þá hefur farþegum fækkað á Akureyrarflugvelli frá 1990 úr liðlega 120 þús. í 115 þús. á árinu 1991 og það er enn fækkun á árinu 1992. Það er alveg það sama að segja um Sauðárkrók og Húsavík því þó að tölur í plöggum sem eru á borðum þingmanna sýni eilitla hækkun þá eru það ekki réttar tölur vegna þess að á síðasta ári voru Flugleiðir með áætlunarflug í gegnum Sauðárkrók til Húsavíkur en þeir telja farþegana á báðum stöðum þannig að það er ekki raunveruleg fjölgun heldur tvítalið í millilendingum. Þetta er einföld skýring. Á Egilsstöðum hins vegar er aukning, enda er þar ekki komið það vegakerfi eða samgöngukerfi sem vonir margra standa til að komi á sínum tíma, hvort sem er með því að ljúka hringvegi eða byggja hálendisvegi sem er auðvitað mikið og merkilegt mál framtíðarinnar.
    Á Ísafirði og Vestfjörðum eru þessir miklu erfiðleikar og þar eru mörg tæknileg vandamál sem þarf að kanna, bæði varðandi aðflug, blindflug, varðandi möguleika tæknibúnaðar sem truflast verulega af fjöllum og aðstæðum þar. Það eru tæknileg vandamál sem þar er mest við að glíma.
    Það kom hér fram í umræðunum hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að líklega mundu Ísafjarðarflugvöllur og Vestmannaeyjaflugvöllur aldrei komast í 1. flokk. 1. flokkurinn miðast við lengd flugbrauta og ég held að það sé rétt að þær tæknilegu aðstæður sem hindra það á Ísafirði séu ekki hvað síst erfitt aðflug. Í Vestmannaeyjum er það ekki tæknilegt vandamál. Það er tæknilega mögulegt að lengja báðar flugbrautir þar til beggja átta en það kostar mikið og svo er hitt annað mál hvort menn vilja gera það af umhverfisverndarástæðum, en tæknilega er það ekki ómögulegt, tæknilega er það auðvelt verk og nóg er til af jarðefninu, 240 millj. m 3 bárust þar í hlað á árinu 1973. Þess vegna fannst mér svolítið skammt hugsað hjá hæstv. fyrrv. samgrh., föður jarðganganna, að hugsa ekki til þess að auðvitað kann það að vera að innan 15, 20, 25 ára verði komin jarðgöng út í Vestmannaeyjar sem mundi létta á þörfinni fyrir flugi. Það er ljóst, miðað við jarðgangagerð í Noregi, nýjustu framkvæmdir þar sem eru unnar eftir botni en ekki í gegnum berg, að jarðgöng milli lands og Eyja kynnu að kosta 2,5--3 milljarða kr. en ekki 7--10 eins og menn hafa hugsað hingað til með því að vinna slík göng í gegnum berg.
    Það er ör þróun í þessum málum og það er auðvitað hluti af því dæmi sem við höfum verið að hugsa við gerð flugvalla, en þetta eru atriði sem ég vildi láta koma fram að um leið og menn horfa til þess að treysta þjónustuna á varaflugvöllunum, þá má ekki gleyma því að vandinn í okkar eigin hlaði er mikill víða og það þarf að leysa hann ekki síður og að mínu mati á undan hinu.