Flugmálaáætlun 1992--1995

94. fundur
Miðvikudaginn 04. mars 1992, kl. 15:38:00 (3972)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið hafin áhugaverð umræða í sambandi við flugmál og flugmálaáætlun og röðun framkvæmda. Að vísu hefur verið nokkuð óljóst hvort menn eru að tala almennt um uppbyggingu sjálfsagðra þjónustuflugvalla sem við þurfum að byggja upp um landið og hins vegar um uppbyggingu svokallaðra varaflugvalla eða öryggisflugvalla. --- Það er vont að þeir skuli hvorugur vera hér í salnum, hæstv. núv. samgrh. og hæstv. fyrrv. samgrh. Ég hefði ekki haft á móti því að þeir væru hér en það er sjálfsagt til of mikils mælst. Hér kemur hæstv. núv. samgrh. Ég læt það duga. Ég sé ekki ástæðu til að vera að bíða eftir hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þó hann segði hér býsna merkileg orð og ég hefði þess vegna gjarnan viljað hafa hann viðstaddan til þess að hann færi aðeins í upprifjun með okkur frá því að hann sat í stól samgrh. Hann sagði hér áðan í máli sínu að þetta hefði verið allþvælingsleg umræða, hann orðaði það svo, og sagði að auðvitað skipti það mestu máli, og þá var hann að tala um öryggisflugvöllinn, hvað hinir færustu menn segðu um þessa þætti. Ég er hv. þm. og fyrrv. hæstv. samgrh. algjörlega sammála í þessu efni. Það er auðvitað það sem á að ráða. Við eigum að hlusta á þá menn sem gerst þekkja þessa hluti en því miður finnst mér að ég lesi það oft í gegn, ekki aðeins af þessari flugmálaáætlun nú eða áður heldur og af ýmsum öðrum gögnum sem lögð eru hér fram, að þau einkennast of af þeim sem situr í ráðherrastól í það og það sinnið.
    Mig langar aðeins til þess að vitna í till. til þál. sem hér var flutt fyrir ekki löngu síðan. Fyrsti flm. þeirrar þáltill. var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fyrrv. hæstv. samgrh. Sá sem skrifaði næstur á tillöguna með fyrrv. samgrh. er hæstv. núv. samgrh. Halldór Blöndal. Þessa þáltill., hæstv. samgrh., fluttuð þið saman hæstv. fyrrv. samgrh. og sá sem nú situr í þeim stól og varðaði varaflugvöll á Akureyri sem er hið besta mál, að byggja upp Akureyrarflugvöll vegna þess hversu þýðingarmikill flugvöllur hann er. Sama á við um Egilsstaðaflugvöll. Það vil ég að komi hér skýrt fram. En þá erum við að tala um öryggisflugvöll fyrir millilandaflug og öryggisflugvöll fyrir íslenska flugmenn og áhafnir eins og mér fannst hv. þm. Árni Johnsen hnykkja hér rækilega á og gerði því góð skil. En mig langar aðeins að grípa aðeins inn í tvö fylgiskjöl sem voru með þessari þáltill. hæstv. fyrrv. samgrh. og hæstv. núv. samgrh. sem þeir notuðu sem vopn í því að það væri nauðsynlegt að byggja upp þennan fluvöll á Akureyri. Þar er byggt á umsögn Sigurðar Aðalsteinssonar, ef ég veit rétt, flugstjóra hjá Flugfélagi Norðurlands, sem er aðaleigandi þess og framkvæmdastjóri, en þar segir Sigurður Aðalsteinsson, með leyfi forseta:
    ,,Ef við svo lítum á þá fjóra flugvelli sem oft hafa verið nefndir í þessu sambandi og liggja utan veðursvæðis Reykjanesskagans, þá eru aðflugs- og veðurfarsskilyrði líklega best á Sauðárkróksflugvelli, Alexandersflugvelli við Sauðárkrók.`` Ég sé að veðurfræðingurinn nikkar og gefur til kynna að hér sé rétt farið með. ,,Síðan koma Egilsstaðir, Húsavík og Akureyri.`` Ætli Sigurður Aðalsteinsson viti ekki nokkuð um hvað hann er hér að fjalla?
    Í hinu fylgiskjalinu sem þeir fyrrv. hæstv. samgrh. og hæstv. núv. samgrh. lögðu fram í þessari þáltill. sinni er vitnað í Hilmar Baldursson, flugmann og fyrrv. varaformann flugráðs. Það er nú ekki í kot vísað að vitna í þessa heiðursmenn. ( Gripið fram í: Núverandi.) Og núverandi einnig, já. Þakka þér fyrir. Og það væri fróðlegt, virðulegi forseti, að mega lesa það upp líka hvað þessi ágæti maður, Hilmar Baldursson, segir:
    ,,Ég er sammála þeirri niðurstöðu sem komist hefur verið að varðandi samanburð á Akureyri og Sauðárkróki að flugtæknilega og veðurfarslega er Sauðárkrókur mun betri kostur en ég sé ekki í sjónmáli að það verði búinn til varaflugvöllur á Sauðárkróki.``
    Báðir þessir menn fullyrða að öryggislega séð fyrir flugfarþega og áhafnir sé Alexandersflugvöllur við Sauðárkrók, besti valkosturinn. En skyldi það nú vera af því að Sauðárkróksflugvöllur er svo stuttur að þess vegna hafi það staðið fyrir hæstv. fyrrv. samgrh. og hæstv. núv. samgrh. að hefja framkvæmdir við þennan völl sem þeir sem best þekkja til mæla með að verði gert? Skyldi það vera af því? Nei. Alexandersflugvöllur við Sauðárkrók er nefnilega næstlengsti flugvöllurinn, lengsti flugvöllur utan þessa svæðis hér fyrir sunnan. Hann er röskir 2.000 m á lengd. Þetta er merkileg niðurstaða og við erum oft búnir að fara í gegnum þessa umræðu hér á Alþingi og ég var satt að segja að velta því fyrir mér hvort ég ætti nokkuð að taka til máls nú vegna þess að mér finnst þetta hálfömurleg umræða og hún er mjög þreytandi og leiðigjörn fyrir þessa tvo hæstv. samgrh., fyrrv. og núv. Hún hlýtur að vera það vegna þess að þessir aðilar hljóta að vita að þegar við erum að tala um varavöll --- varavöll fyrir hvað? Er það ekki fyrir þá sem í flugvélunum eru? Er það ekki? Ætlum við ekki að byggja upp varaflugvöll, öryggisvöll? Hver er það sem hefur tekið ákvörðun um að breyta út af því og velja lélegri kostinn sem veitir minna öryggi þeim sem um loftin fara? Hver er það? Ég sá það ekki í tillögum hv. þm. og fyrrv. samgrh. Steingríms J. Sigfússonar að það væri mikið verið að huga þar að Sauðárkróksflugvelli, Alexandersflugvelli, og því miður sé ég ekki heldur í tillögu hæstv. núv. samgrh. Halldórs Blöndals. En það vil ég segja þeim ágæta manni og þingmanni Norðurl. e. að við nágrannar hans vestan við Tröllaskagann munum fylgjast mjög grannt með því hvernig hæstv. ráðherra heldur á þessu máli. Það er orðið rannsóknarefni út af fyrir sig hvernig á þessum málum hefur verið haldið.
    Ef ég lít aðeins lengra til baka þá var það nú svo að árið 1980 var skipuð nefnd til að skoða þessi

mál, um uppbyggingu varaflugvallar. Formaður þessarar nefndar var hinn mæti maður og ágæti flugstjóri okkar, Jóhannes Snorrason. Og skyldum við nú ætla að Jóhannes Snorrason vissi nokkuð um hvað hann væri að fjalla. Jóhannes Snorrason, eða nefnd hans skilaði áliti í október 1980. Þar kemur fram að athugaðir hafi verið í þessu sambandi flugvellirnir Akureyri, Egilsstaðir, Húsavík og Sauðárkrókur. Hver skyldi hafa verið niðurstaða þessa mæta manns og þessa starfshóps? Hann var nú ekki aldeilis einn, það voru valinkunnir menn sem um þessi mál fjölluðu með Jóhannesi Snorrasyni. Niðurstaða nefndarinnar var sú að Sauðárkróksflugvöllur væri hagstæðasta valið og mætti þeim kröfum sem gerðar yrðu til slíks vallar. Þetta varð niðurstaða nefndar sem skipuð var og Jóhannes Snorrason veitti formennsku.
    Árið 1984 var síðan sett enn ein nefnd á laggirnar af Matthíasi Bjarnasyni, þáv. samgrh. Formaður þeirrar nefndar var líka hinn mesti sómamaður, ekki fluglærður að ég veit best, núv. bankastjóri Seðlabankans, þáv. hv. þm. Reykv., Birgir Ísl. Gunnarsson. Hann var formaður þessarar nefndar. Sú nefnd komst að nákvæmlega sömu niðurstöðu og nefnd Jóhannesar Snorrasonar. Að nákvæmlega sömu niðurstöðu.
    En hvar stöndum við í dag í þessu máli? Hvað hafa þessir heiðursmenn verið að gera, bæði þeir sem sitja í ráðherrastólunum og ekkert síður þeir sem í flugráði hafa starfað? Hver eru vinnublöðin sem þessir menn vinna eftir? Hverjar eru leikreglurnar? Nú skyldum við álíta að það væri eitthvað allt annað að. Kannski gengi þetta ekki upp við áætlanir og hugmyndir flugfélaganna, eins og hér kom fram áðan hjá hv. þm. Árna Johnsen þegar hann fór að tala um fjölda farþega um þessa velli. Ég er því miður ekki með þessar tölur, ég dreg þær í efa, ég ætla ekki að segja meira. Ég dreg í efa að hann hafi farið með réttar tölur.
    En á þessum tíma var líka leitað álits flugfélaganna á þessu máli. Forráðamenn Flugleiða voru spurðir í þessu máli og hvað skyldu þeir hafa sagt, virðulegi forseti? Þá kemur fram að Flugleiðir eru sammála niðurstöðu nefndarinnar frá 1980 um að Sauðárkrókur sé hagstæðasti kosturinn. Flugleiðir eru sammála um það. Þá er eitt flugfélagið eftir enn sem hét þá Arnarflug. Hvað skyldu Arnarflugsmenn hafa sagt um þessa niðurstöðu? Og með leyfi, virðulegi forseti, mætti ég kynna það þingmönnum og ekki síst sitjandi ráðherra samgöngumála: Arnarflug mælir eindregið með því að Sauðárkróksflugvöllur verði byggður upp sem aðalvaraflugvöllur Íslands fyrir millilandaflug.
    Ég var búinn að vitna í flugstjóra og forstjóra Flugfélags Norðurlands, Sigurð Aðalsteinsson. Þarf hér að leiða fram fleiri vitni í þessu máli? Þarf þess? Ekki í mínum huga. Hins vegar þyrfti kannski að velta því fyrir sér eins og ég sagði hér áðan að það er verðugt rannsóknarefni hvernig að þessum málum hefur verið unnið. Það er verðugt umhugsunarefni.
    Það kom hér fram, ég held að það hafi verið hjá hv. þm. Árna Johnsen frekar en fyrrv. samgrh. Steingrími J. Sigfússyni, að Akureyrarflugvöllur hefði vegið mjög þungt og þyngra en Egilsstaðaflugvöllur, eða gæti gert það í vissum tilfellum, sem varaflugvöllur, vegna fjarlægðarinnar til Keflavíkur eða Reykjavíkur. Það er rétt, þetta var eitt af því sem kemur fram í þessu nál. En hvað --- og nú bið ég hæstv. samgrh. að leggja enn við hlustirnar, vegna þess að hann fer nú þarna nokkuð títt um sjálfur --- það er enn styttra, hæstv. samgrh., frá Alexandersflugvelli við Sauðárkrók til Keflavíkur eða Reykjavíkur heldur en frá Akureyri. Það er enn styttra. (Gripið fram í.) Þannig að þau rök mæla enn með Alexandersflugvelli, einmitt fjarlægðin á milli þessara staða. ( Landbrh.: Svo er styttra frá Stykkishólmi.) Það er hárrétt. En veðurfarsskilyrði og önnur uppbygging er ekki þar. Og það er einmitt þessi málflutningur og háttalag ráðherrans, eins og kemur fram í þessu innskoti, sem mér finnst einkenna þessar áætlanir. Þegar við erum að tala um varaflugvelli þá erum við að tala á allt öðrum nótum en almennt um uppbyggingu flugvalla. Ég geri mikinn greinarmun þar á. Það finnst mér þessir ágætu menn ekki gera í sínum áætlunum, alls ekki. Það er allt annað mál hvort við byggjum upp, og við hljótum allir þingmenn að vera sammála um það að leggja áherslu á uppbyggingu flugvalla innan lands, við verðum að gera það og búa þá hið besta. Og ég tek undir hvert orð sem hv. þm. Árni Johnsen sagði hér t.d. um Siglufjarðarflugvöll. Þar þarf að taka myndarlega á og verður að finna lausnir. En ég sé þær ekki í þessum áætlunum. Þær eru ekki þar.
    Virðulegi forseti. Það getur vel verið að þessari umræðu sé nú að ljúka en það er ekki nema bara um sinn. Þetta mál mun nú fara til samgn. og þar gefst okkur tækifæri til að fjalla um þessi mál og eins um vegáætlun og flugmálaáætlun. Það er ekki óeðlilegt og að mörgu leyti ákjósanlegt að þetta skuli fara saman. Ég skal því ekki tefja þessa umræðu meir, en ég vildi koma þessu á framfæri. Hér sitja margir nýir þingmenn og ég efast um að þeir hafi gert sér grein fyrir því eða lesið það sem ég hef hér sagt. Þess vegna vildi ég vekja á þessu athygli. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því og það hefur valdið mér vonbrigðum og gerir það enn að það er eins og sumir menn hlusti ekki í þessu máli. Og það er alvarlegt þegar það eru einmitt þeir menn sem kannski ættu að hlusta best. Það er áhyggjuefni. Spurningin er hvort það er komið svo að við almennir þingmenn þurfum að fara að beita hér einhverjum öðrum vinnubrögðum til þess að vilji Alþingis komi nógu skýrt fram. Það er orðið umhugsunarefni og um það munum við vonandi m.a. fjalla í samgn. þegar þessi mál verða þar á dagskrá. En sú flugmálaáætlun, sem hér liggur fyrir, ber þess ekki vitni að það hafi verið hlustað á þá menn eins og hv. fyrrv. samgrh. sagði hér áðan, að menn ættu að hlusta á og taka tillit til. Það gerði hann ekki og mér sýnist að hæstv. núv. samgrh. ætli ekki að gera það. En ég ítreka það, hæstv. ráðherra, að við nágrannar þínir vestan Tröllaskagans munum fylgjast með því hvernig þú munt haga þínum vinnubrögðum í þessari áætlun.