Gæðamál og sala fersks fisks

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 10:37:00 (3977)

     Frsm. sjútvn. (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Sjútvn. hefur haft til meðferðar till. til þál. um gæðamál og sölumeðferð á ferskum fiski. Flm. þeirrar tillögu eru Jóhann Ársælsson og Steingrímur J. Sigfússon.
    Nefndin hefur fengið umsagnir frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Fiskifélagi Íslands, Landsambandi íslenskra útvegsmanna, Ríkismati sjávarafurða, Samtökum fiskvinnslustöðva, Sjómannasambandi Íslands og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna.
    Í þessari tillögu er hreyft vandasömu og mikilsverðu máli sem þörf er á að athuga ekki síst vegna hins mikla samdráttar sem nú er í fiskveiðum en það er líka í athugun í sambandi við endurskoðun á stefnu í sjávarútvegsmálum. En þeirri athugun á að vera lokið fyrir lok þessa árs.
    Í trausti þess að þeirri athugun ljúki fyrir árslok 1992 leggur nefndin samhljóða til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Anna Ólafsdóttir Björnsson, fulltrúi Samtaka um kvennalista, hefur setið fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti nefndarinnar. Árni R. Árnason og Guðmundur Hallvarðsson voru fjarstaddir afgreiðslu málsins. Magnús Jónsson sat fund nefndarinnar þegar málið var afgreitt í stað Össurar Skarphéðinssonar.
    Virðulegur forseti. Samkvæmt nál. leggur sjútvn. samhljóða til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.