Útfærsla togveiðilandhelginnar

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 10:54:00 (3980)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel að hv. sjútvn. hafi komist að skynsamlegri niðurstöðu um meðferð þessa máls. Eins og margir vita er hér um að ræða afar viðkvæmt mál sem er sambúð sjómanna sem vinna með ólík veiðarfæri. Það er þekkt víða um landið að stundum hafa rekist á hagsmunir þeirra sem veiða með troll og þeirra sem veiða með línu, þeirra sem veiða með snurvoð og þeirra sem veiða á handfæri. Þetta er allt saman þekkt og við könnumst við leiðindaágreining sem stundum hefur komið upp í þessu sambandi. Að vísu finnst mér stundum að fullmikið hafi verið gert úr þessum ágreiningi þótt hann sé vissulega til staðar. Mjög víða hafa menn reynt að leysa málin í sátt og samlyndi eins og frekast hefur verið kostur. Ég vek t.d. athygli á því að fyrir nokkrum árum, við opnun togveiðiheimilda úti fyrir Vestfjörðum, skapaðist talsverður órói hjá mörgum, sérstaklega þeim sem sóttu sjóinn á minni bátum, á línu og handfæri. Þeir töldu að þarna væri verið að vega að rétti þeirra. Með ítarlegum samtölum skipstjórnarmanna og þeirra hagsmunaaðila sem komu að þessu var reynt að finna ákveðna lausn, búa til hólf úti fyrir Vestfjörðum til að koma til móts við þau sjónarmið sem þarna voru að rekast á. Ég tel að það hafi tekist nokkuð bærilega á þessu sviði.
    Einnig hefur blandast inn í þessa umræðu spurningin um skaðsemi einstakra veiðarfæra og sérstaklega hefur orðið hávær umræðan um snurvoðina eða dragnótina vegna þess að mjög margir héldu því fram að hin vaxandi veiði með snurvoð, með dragnót úti fyrir ströndum landsins hefði slæm áhrif á botninn og lífríkið og veiðarnar í önnur veiðarfæri. Sjómenn sem aftur á móti stunduðu veiðar með dragnót héldu því fram að þetta veiðarfæri hefði bara hin bestu áhrif á lífríkið, rótaði upp botndýrum, skapaði þannig ætisskilyrði fyrir botnfiskinn. Þeir bentu á að svo virtist sem fiskur sem veiddist í snurvoðina væri allt annars konar fiskur en sá sem menn voru að fá á færi, jafnvel þótt verið væri að veiða á svipuðum slóðum.
    Þetta eru allt saman afar viðkvæmar deilur eins og við vitum og ég held að það sé nauðsynlegt að við reynum sem löggjafarsamkoma frekar að setja niður þessar deilur en að auka þær. Þess vegna held ég að niðurstaða nefndarinnar, að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar í því skyni að það verði skoðað betur, sé mjög skynsamleg. Það hefði að mínu mati ekki verið heppileg aðferð að kveða upp úr um það nákvæmlega hvernig ætti að standa að þessu máli með öðrum hætti en nefndin leggur til.
    Hér eru uppi svo mikil álitamál og það vantar töluvert mikið af upplýsingum í raun og veru til að við getum fullyrt nákvæmlega um það hvernig heppilegast er að skipa þessum málum að ég tel að leggja þurfi í það vinnu að vinna þetta mál í sem mestri sátt allra þeirra sem að því koma. Það eru okkar hagsmunir að nýta fiskveiðilandhelgina, gera það með sem arðbærustum og skynsamlegustum hætti þannig að kostir allra veiðarfæra og allra staða fái að njóta sín. Að mjög mörgu er að hyggja í þessu sambandi sem óvarlegt er að hrapa að. Þess vegna fagna ég niðurstöðu hv. sjútvn. og vona að þeirri endurskoðun sem þarna er lögð til verði hraðað svo hún geti legið fyrir sem fyrst.