Þorskeldi

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 11:12:00 (3985)

     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni þarft mál sem full ástæða er til þess að tekið verði til rækilegrar athugunar. Hins vegar skiptir miklu máli í hvaða farveg þorskeldi fer eins og annað matfiskeldi hér á landi. Ég vil gera það að sérstöku umræðuefni í sambandi við þetta mál hvernig unnið hefur verið að rannsóknum í sambandi við lúðueldi í Eyjafirði á vegum Fiskeldis Eyjafjarðar. Þannig er mál með vexti að það hefur verið fjármagnað að talsverðu leyti af fyrirtækjum í sjávarútvegi. Fyrirtækið skuldar raunar ekkert, það hefur lagt fórnarkostnað í tilraunir og þróunarstarfsemi sem nú eru að skila árangri. Þetta er raunar það sem hefur gerst í allt of litlum mæli á Íslandi, þ.e. að sterk fyrirtæki í sjávarútvegi leggi hluta af sínum tekjum til tilraunaverkefna og þróunarverkefna. Þarna hefur þetta tekist með þeim hætti að nú liggja fyrir upplýsingar um klak og það er raunar verið að ljúka fyrsta stigi þessara athugana.
    Í undirbúningi er að koma á fót framleiðslufyrirtæki, matfiskeldisfyrirtæki, sem gæti tekið við af þessu fyrirtæki, Fiskeldi Eyjafjarðar. Með öðrum orðum hefur þarna verið unnið mikið rannsóknastarf á vegum fyrirtækja með hlutafélagi sem um það hefur verið stofnað og raunar líka stuðningi ríkisins. Nú er séð fram á að þetta rannsóknastarf gefi góðan árangur og leggi grundvöll að atvinnufyrirtæki í greininni sem nú er verið að skoða möguleika á að stofna. Ég held það skipti mjög miklu máli að þróunar- og rannsóknastarfsemi hér á landi fari í auknum mæli í þennan farveg, að áhættuaðilarnir, fyrirtækin í landinu, taki meiri þátt í því að byggja upp slíka starfsemi og að rannsókna- og þróunarstarf verði í auknum mæli í framtíðinni fjármagnað af einkafyrirtækjum. Raunar er það áhyggjuefni, og hefur lengi verið hjá mörgum hér á Íslandi, hvað hlutur hinna sjálfstæðu fyrirtækja í rannsóknum og þróunarstarfi er hlutfallslega lítill hér og þyrfti að fara vaxandi. Á það kannski ekki síst við um sjávarútveginn. Sjávarútvegurinn ætti að hafa miklu meira svigrúm til þess að taka þátt í rannsókna- og þróunarstarfi og það er mjög mikilsvert þegar litið er til framtíðarinnar að það hagræðingarstarf sem sjávarútvegurinn er að vinna núna skili sér í auknum hagnaði til sjávarútvegsins þannig að hann hafi meira svigrúm til þess að leggja aukið fé til þessara mikilvægu mála sem eru rannsókna- og þróunarstarf og uppbygging atvinnulífsins á því sviði.