Þorskeldi

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 11:23:00 (3989)


     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Í þessari umræðu hefur sannast það sem mig hefur lengi grunað, að raunvísindi misstu digran spón úr sínum aski þegar hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson ákvað að taka upp kennslu í staðinn fyrir að stunda rannsóknastörf þegar hann var á bernskum aldri. Í 70 ár hafa geisað deilur meðal fiskifræðinga, þar sem menn hafa vegist á með þungum rökum, um það hvort tilteknir fiskar, þar á meðal þorskar, ganga aftur á þær hrygningarstöðvar sem þeir urðu til á. Nú hefur loksins fengist niðurstaða í því vegna þess að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson kemur hér og segir: Auðvitað vita það allir að þorskurinn gengur aftur á hrygningarstöðvarnar þar sem hann klaktist út. Þá vita menn það. Þá hef ég fengið svar við þeirri spurningu sem lengi hefur vafist fyrir mér og öðrum sem hafa lítillega vélað um þessi fræði.
    Það er hins vegar ekkert sjálfgefið að þorskurinn hér við Ísland hegði sér með svipuðum hætti og þorskurinn við Noreg. Við Noreg, til að mynda, hafa menn fundið þorskstofna sem hegða sér á mjög mismunandi vegu og hafa þó hvorir tveggja norskt vegabréf. Það er því alls ekki ólíklegt að íslenski þorskurinn hegði sér e.t.v. öðruvísi en norski þorskurinn, eins og mér mundi aldrei koma til hugar að halda því fram að íslenskir framsóknarmenn hegði sér svipað og norskir framsóknarmenn, hvað þá heldur að ætla að halda þeirri ósvinnu fram að til að mynda hv. þm. Finnur Ingólfsson, framsóknarmaður í Reykjavík, hegði sér með svipuðum hætti og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, þingmaður Vestf., að ég ræði nú ekki hv. þm. Stefán Guðmundsson. En það eru aukaatriði.
    Við Noreg eru hins vegar landfræðilegar aðstæður talsvert öðruvísi en hér við Ísland. Þar eru þessir löngu djúpu firðir sem eru afskaplega heppilegir uppeldisstaðir fyrir ungviði fiska. Það var út af því sem menn, a.m.k. í árdaga, drógu þá rökréttu ályktun að það væri líklegt að þorskstofnar þar hegðuðu sér öðruvísi en hér þar sem þorskarnir hafa ekki skjólið af hinum djúpu vel skýldu fjörðum. Það þurfti því rannsóknir til að komast að þessari niðurstöðu. Það er nefnilega oft þannig að þótt maður haldi að eitthvað sé næsta rökrétt þá sýna rannsóknir og kannanir fram á annað.
    Ég ætlaði einungis að gera hér að umræðuefni þau ummæli hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar að sú staðreynd að Byggðastofnun fær ekki lengur, að því er hann segir, að taka þátt í þróun fyrirtækja af þessu tagi, t.d. með hlutafjárframlögum, endurspegli vel stefnu stjórnvalda. Það kann vel að vera að þau mættu taka betur á þessum málum með þeim hætti sem þingmaðurinn var að segja að menn ættu að gera, þ.e. Byggðastofnun ætti að koma með rösklegri hætti inn í þetta. Ég vil samt sem áður geta þess að hér í landinu er að þróast lúðueldi og það hefur gengið nokkuð vel. Menn hafa verið með tilraunir bæði á eldi stórra lúða sem þeir hafa veitt í sjó og eins á lúðuklaki. ( Gripið fram í: Byggðastofnun.) Nú vil ég að það komi hér fram að búið er að taka ákvörðun --- ég tek það fram að ég hef einungis heyrt það úr fregnum fjölmiðla, ég hef hvergi fengið það staðfest en það hefur eigi að síður komið fram opinberlega að stjórnvöld hafi markað stefnu um lúðueldi --- sem felst m.a. í því að ein af stærstu og best gerðu fiskeldisstöðvum sem hafa verið reistar hér á Íslandi, sem því miður varð gjaldþrota í eigu þáverandi fyrirtækis en er núna í eigu hins opinbera, hefur verið markaður staður innan lúðueldis. Menn geta svo deilt um það hvort það sé rétt eða rangt og á þessu stigi ætla ég ekki að gefa upp mína skoðun um það. Ég vil samt að í þessari umræðu og í tilefni af ummælum hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar komi það fram að hvað varðar þessa litlu grein innan fiskeldisins þá hafa stjórnvöld bersýnilega ákveðið að taka röggsamlega á því máli og mun betur en þau ákváðu á sínum tíma að styðja við laxeldið.