Þorskeldi

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 11:27:00 (3990)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé mjög þarft mál á ferðinni. Þetta er auðvitað rannsóknaverkefni sem hér er verið að leggja til. Ég er aðallega að koma hér upp til þess að segja það að ég hef orðið var við að menn hafa misskilið orðalagið á tillögugreininni. Þar er talað um tilraunir með seiðaeldi í stórum stíl og menn hafa jafnvel haft það í flimtingum hvernig þetta er orðað og skilið það þannig að það ætti bara að fara að framleiða fiskistofnana samkvæmt þessari tillögu. En auðvitað, ef menn lesa tillöguna grannt, er náttúrlega ekki hægt að misskilja hana. Þarna er verið að leggja til að hafnar verði tilraunir sem séu það umfangsmiklar að menn geti fengið skynsamlega niðurstöðu. Auðvitað er það tvennt ólíkt að gera tilraunir í mjög litlum mæli og tilraunir sem hægt er að framkvæma, við skulum segja í einni af fiskeldisstöðvum okkar, þannig að meira mark sé á þeim takandi. En við höfum hér menn sem vita allt um það hvernig á að fara að því að finna sannleikann með tilraunum og ég ætla ekki að blanda mér inn í það mál. Ég vildi koma þessu að því að ég hef orðið var við að menn hafa jafnvel haft það í flimtingum að hér ætti strax að fara að framleiða það sem vantaði upp á fiskistofna okkar.
    Ég tek undir það sem menn hafa verið að segja um tilraunir almennt. Þær þarf auðvitað að auka og það á að hafa til þess kraft í Byggðastofnun að styðja við það sem verið er að gera. Það þýðir ekkert að koma og segja að það sé gert. Það hefur verið dregið úr krafti Byggðastofnunar og núv. ríkisstjórn hefur gert það. Það hefur komið mjög skýrt fram í vetur að hún er að draga úr möguleikum Byggðastofnunar til að taka á svona málum. Þeirri þróun þarf að snúa við og vonandi verður það hægt sem allra fyrst.
    Ég vil bæta því við að á fundi sjútvn. í vetur sagði Jakob Magnússon fiskifræðingur að svona tilraunir væru mjög þarflegar og gagnlegar fyrir fiskifræðinga til að vita meira um atferli þorsksins og gera sér betur grein fyrir því hvað þyrfti að gera, ég kann nú ekki að hafa orðrétt eftir honum, hvað þyrfti að gera, ef eitthvað, til að koma í veg fyrir að við værum að gera spjöll á lífríkinu sem við gerðum okkur kannski ekki grein fyrir í dag að við værum að gera.