Þorskeldi

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 11:42:00 (3994)


     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram og ég fagna þessari þáltill. sem flutt er af hv. þm. Ragnari Arnalds. Tíma þingsins er örugglega vel varið í að staldra við og ræða um mál eins og þetta. En tími þingsins vill því miður fara fremur í önnur mál sem a.m.k. að mínu mati eru léttvægari.
    Hv. 5. þm. Norðurl. e. vék aðeins að Fiskeldi Eyjafjarðar og því merka starfi sem þar fer fram. Hann vék að þætti Byggðastofnunar og opinberra aðila og einstaklinga í því fyrirtæki og þeirri uppbyggingu sem þar var gerð og er vissulega til mikillar fyrirmyndar. Vegna þess að Byggðastofnun hefur oft verið nefnd hér þá er rétt að það komi skýrt og rækilega fram að Byggðastofnun er stærsti aðilinn í Fiskeldi Eyjafjarðar. Hún hefur lagt langmest af mörkum til þessarar starfsemi. Og það væri hollt fyrir suma aðila hér inni, sem vega nú gjarnan ótt og títt að þeirri stofnun, að átta sig á hlutunum. ( ÓRG: Þeir eru nú aðallega fjarverandi.) Þeir eru aðallega fjarverandi nú, það er rétt, hv. þm. Ólafur Ragnar.
    Það er einnig umhugsunarefni fyrir okkur að með nýútgefinni reglugerð, sem forsrh. hefur gefið út um Byggðastofnun, eru einmitt þeir kostir stofnunarinnar mjög þrengdir að geta gerst virkur aðili í atvinnufyrirtækjum og hjálpað þeim að komast á legg. Byggðastofnun á ekki að vera of lengi í slíkum rekstri en það á að vera verkefni hennar að hjálpa til við að koma fyrirtækjunum upp og gera þau rekstrarhæf. Síðan á hún að selja sín bréf í þeim fyrirtækjum. Það hefur verið mitt viðhorf til þessara mála. --- En þar sem ég sé að hv. þm. gengur nú í salinn, þá var ég að skýra frá því að Byggðastofnun er stærsti eignaraðili að Fiskeldi Eyjafjarðar og hefur átt þar öðrum fremur drýgstan þáttinn í því að gera mögulegt það starf sem þar hefur verið unnið. Vissulega geri ég ekki lítið úr framlagi hinna fjölmörgu annarra aðila sem lögðu fram fé til að gera þessa hluti mögulega.
    En um Byggðastofnun ætla ég ekki að öðru leyti að ræða. Ég trúi því að það mál fari að komast á dagskrá sem hér var til umræðu og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson var í miðri ræðu sinni í fyrra að tala um skýrslu Byggðastofnunar, og ég vona að hún fari að komast aftur á dagskrá á nýju ári þannig að við getum farið að ræða hana og þá mun þessi reglugerð ábyggilega koma mikið á dagskrá ásamt ýmsu öðru.
    Hv. 17. þm. Reykv. Össur Skarphéðinsson vék nokkrum orðum að okkur framsóknarmönnum. Hann fer yfirleitt ekki svo í þetta ræðupúlt að hann víki ekki orðum að okkur framsóknarmönnum. Hann hefur lært af formanni flokksins sem skrifaði nánast aldrei grein eða opnaði munninn öðruvísi en að vera með svigurmæli og dylgjur um Framsfl. og þar er ég að tala um hæstv. núv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson. En það get ég sagt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það kemur okkur þingmönnum Framsfl. ekkert á óvart að Alþfl. þekki til lifnaðarhátta þorsksins.
    Það er hins vegar umhugsunarefni í þessu máli fyrir okkur sem sátum í þessari nefnd --- og ég dreg ekki dul á það að ég velti því mjög fyrir mér hvort það væri rétt leið að vísa jafnmerku máli og þessu til núv. ríkisstjórnar, ég velti því mjög vel fyrir mér og dró það satt að segja í efa að sú ríkisstjórn sem nú situr væri þess verð að taka þetta mál að sér. Mér sýnist hún ekki hafa komist svo frá sínum störfum að á það sé hættandi, en niðurstaðan varð engu að síður sú að við tókum þann kostinn og urðum sammála um að reyna á dug ríkisstjórnarinnar og vita hvort hún gæti eitthvað gert og aðhafst í þessu máli.
    En ég vil segja það að lokum, virðulegi forseti, að hér er hið merkasta mál á ferðinni, það er engin spurning hvort sem við erum að tala um eldi á þorski eða lúðu. Það eru margvíslegir möguleikar sem við eigum, alveg ótrúlegir möguleikar í þessum greinum og það er mikilvægt að þeir séu nýttir af mikilli skynsemi og að við þorum að hætta fjármagni sem nauðsynlega þarf til þess að slíkt rannsóknarstarf geti farið fram.