Þjóðarbókhlaða og endurbætur menningarbygginga

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 11:59:00 (3999)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason) :
    Herra forseti. Þetta frv. um breytingu á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, er lítið frv. að vöxtum. Í athugasemdum við það segir að samkvæmt þeim lögum sem nú gilda skuli skattskylt mark til sérstaks eignarskatt breytast samkvæmt skattvísitölu, sbr. 122. gr. laga nr. 71/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Skattvísitala er ákveðin í fjárlögum fyrir ár hvert en skattvísitala var ekki ákveðin í fjárlögum fyrir þetta ár og hækkaði því ekki skattskylt mark til sérstaks eignarskatts á milli áranna 1991 og 1992. Samkvæmt frv. er lagt til að umrætt mark verði hækkað um 6%.
    Nefndin hefur fjallað um frv. og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.
    Nefndin hefur óskað eftir greinargerð frá fjmrn. um hvernig tekjum af sérstökum eignarskatti hafi verið varið frá því að lögin voru sett á árinu 1989 og hver sé staða framkvæmda við þær byggingar sem fengið hafa fé af þessum skattstofni. Um þetta hefur nefndin beðið en það er ekk komið. Ég tel að það skipti ekki höfuðmáli í sambandi við umræðu og afgreiðslu málsins en þegar þessar upplýsingar koma til nefndarinnar verða þær látnar nefndarmönnum í té.
    Geir H. Haarde tók þátt í afgreiðslu málsins í fjarveru Sólveigar Pétursdóttur.
    Undir nál. rita Matthías Bjarnason, Rannveig Guðmundsdóttir, Halldór Ásgrímsson, Steingrímur J. Sigfússon, Guðrún J. Halldórsdóttir, Geir H. Haarde, Ingi Björn Albertsson, Vilhjálmur Egilsson og Jóhannes Geir Sigurgeirsson.