Ný störf á vegum ríkisins

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 12:37:00 (4005)


     Flm. (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tala fyrir þáltill. sem er á þskj. 131 og er um að meiri hluti nýrra starfa á vegum ríkisins verði utan höfuðborgarsvæðisins. Meðflutningsmenn mínir að tillögunni eru þeir Guðmundur Bjarnason og Jón Helgason. Þáltill. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma í framkvæmd því markmiði að meiri hluti nýrra starfa á vegum ríkisins og stofnana þess verði utan höfuðborgarsvæðisins.
    Jafnframt verði lögð á það áhersla að skapa skilyrði og koma upp aðstöðu á landsbyggðinni fyrir þessa starfsemi.
    Til að móta framvæmd þessrar stefnu skipi ríkisstjórnin nú þegar nefnd þar sem fulltrúar tilnefndir af öllum þingflokkum eigi sæti.``
    Í greinargerð segir svo m.a.:
    ,,Ljóst er að aukning opinberrar starfsemi er einn þeirra þátta sem verulega þýðingu hafa fyrir byggðaþróun og byggðastefna stjórnvalda getur haft áhrif á. Nútímatækni á sviði tölvuvinnslu, fjarskipta og bættra samgangna hafa opnað nýjar leiðir sem fyrir örfáum árum voru ekki í sjónmáli.
    Óhætt er að fullyrða að starfsemi á vegum hins opinbera hefur mikla þýðingu fyrir vinnumarkaðinn á landsbyggðinni, m.a. vegna þess að störf hjá hinu opinbera eru ekki eins háð ytri sveiflum og önnur störf.

    Oft er fjallað um það hvernig auka megi skilvirkni í opinbera geiranum en þeim mun sjaldnar um það hvernig nýta megi opinbera geirann sem mikilvægan þátt í byggðapólitískum aðgerðum.
    Með þetta í huga kann það að virðast undarlegt að ekki hafi verið lögð meiri áhersla á opinbera starfsemi sem mikilvægan þátt í atvinnuþróun landsbyggðarinnar. Umræður hafa hingað til að langmestu leyti snúist um að verja störf í sjávarútvegi og ný störf í iðnaði.``
    Ef við skoðum atvinnuskiptingu þjóðarinnar í 30 ár, 1960--1990, kemur í ljós að árið 1960 störfuðu um 16% í landbúnaði. Árið 1990 voru þessi störf komin niður í 5,9%. Árið 1960 störfuðu um 18,3% í sjávarútvegi, að veiðum og vinnslu. Árið 1990 voru þessi störf komin niður í 11,4%. Árið 1960 störfuðu um 26,2% í iðnaði en 1990 voru þau störf komin í 22,7%. Störf í landbúnaði, sjávarútvegi og iðnaði og tengdum greinum voru því árið 1960 um 60,5% en á 30 ára tímabili hafa þau fallið um 20% eða í um 40% af mannaflanum. Þjónustan hefur hins vegar vaxið á sama tíma eða úr 39,5% í 59,1% á 30 árum. Það þarf ekki fleiri vitnanna við hvert stefnir í þessum efnum.
    ,,Á tímabilinu 1981--1988 urðu til um 7.500 ný störf í opinberri þjónustu og stjórnsýslu. Þetta skiptist þannig að á landsbyggðinni urðu til um 2.500 störf en um 5.000 störf á höfuðborgarsvæðinu.
    Vandi atvinnulífsins er af svipuðum toga víðast hvar á landsbyggðinni. Atvinnulífið á þessum stöðum er tiltölulega einhæft miðað við þá þróun sem á sér stað í samfélaginu. Þær atvinnugreinar, sem hafa verið í hvað örustum vexti, þ.e. þjónustugreinarnar, eru yfirleitt aðeins í litlum mæli á þessum svæðum.
    Til að snúa þessari þróun við þurfa stjórnvöld að setja sér það markmið að meiri hluti nýrra starfa í opinberri þjónustu verði til utan höfuðborgarsvæðisins.     Þessu má ná á þann hátt að ráðuneyti og stofnanir hins opinbera geri grein fyrir því í fjárlagabeiðni hverju sinni hvernig þær hafi náð eða hyggjast ná þeim markmiðum sem hér eru sett fram. Þetta þýðir að störf flytjast ýmist til þeirra útibúa sem fyrir eru eða að opnaðar verða nýjar þjónustustofnanir. Á þennan hátt má koma á aukinni skilvirkni, betri þjónustu og hagstæðari dreifingu atvinnutækifæra.     Nauðsynlegt er að ríkisvaldið leiti samráðs við aðra aðila er þetta varðar um að þeir auki og efli þjónustustarfsemi sína sem mest á landsbyggðinni og stuðli m.a. að því á þann hátt að beina verkefnum eins og kostur er til þjónustuaðila úti á landi.     Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að verulegar breytingar á atvinnulífi landbyggðarinnar verða að eiga sér stað.``
    ,,Hinar miklu breytingar í íslenskum atvinnuháttum á seinni árum hafa valdið straumhvörfum í búsetu fólks. Jafnhliða minnkandi þörf vinnuafls í frumvinnslugreinunum hefur þáttur þjónustugreinanna stöðugt farið vaxandi.
    Allt bendir til þess að enn um sinn muni þáttur þjónustugreina fara vaxandi og þær muni taka við stærstum hluta mannaflaaukningar. Því þarf að leggja áherslu á að efla þessa starfsemi á landsbyggðinni og stuðla þannig að aukinni fjölbreytni atvinnulífs og skynsamlegri byggðarþróun.``
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.