Ný störf á vegum ríkisins

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 13:13:00 (4011)


     Flm. (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar viðtökur. Þær voru eins og ég reiknaði með. Frekar finnst mér þær jákvæðar og ég held að það sé ekki mikið sem ber á milli eða ég vil a.m.k. ekki trúa því að það bil sem hugsanlega væri þar sé ekki brúanlegt.
    Auðvitað er það ekki meining okkar flutningsmanna með till. að vega að höfuðborg okkar Íslendinga. Reykjavík er ekki eingöngu borg þeirra sem hér búa í dag. Hún er höfuðborg okkar allra og við höfum öll verið stolt af því að eiga þessa borg. Landsbyggðin tók þátt í að byggja upp þessa borg, gera hana að því sem hún er. Um það varð friður og hún var þannig í stakk búin að hún gat sinnt því hlutverki sem höfuðborg þarf að gegna.
    Nú eru málin hins vegar á þann veg að Reykjavík er vissulega orðin sjálfbjarga og vel það. Þess vegna er það ekki óeðlilegt að landsbyggðin biðji nú um örlítinn skilning á því að þar þarf mannlíf einnig að dafna. Ég trúi því að þeir sem búa hér í Reykjavík hafi skilning á því og þannig muni Reykjavík best

farnast að landið sé allt í byggð. Enginn má taka það svo að þessi tillaga muni skipta hér einhverjum sköpum fyrir höfuðborgina og það muni bresta einhver flótti í liðið hér á höfuðborgarsvæðinu verði slík tillaga samþykkt. Vegna þess sem kom fram hjá hv. 3. þm. Austurl., að við megum gá að því sem búum úti á landi að við förum ekki einhverju offari í því að berjast fyrir jafnrétti í búsetu. Þar er um mikinn misskilning að ræða.
    Hv. 1. þm. Norðurl. e. kom auðvitað á margan hátt að kjarna þessa máls. Það eru nefnilega þær miklu breytingar sem hafa orðið í þjóðfélaginu. Það eru ekki aðeins samgöngumálin. Það er ekki síður sú fjarskiptatækni sem rutt hefur sér til rúms. Það er einmitt þar sem byltingin hefur kannski orðið hvað mest. Það er hægt að tala um þessa hluti á allt annan hátt en við höfum gert áður og því þótti mér vænt um það, og lagði eyrun sérstaklega við, þegar hv. þm. Einar Kristinn, þingmaður þeirra Vestfirðinga, talaði áðan og hann sagði: ,,Byggðastofnun á Ísafirði.`` Það var mér nefnilega mjög kærkomið að hann skyldi taka svo til orða en ekki eins og menn hafa oft viljað segja, að um sé að ræða útibú frá þessari eða hinni stofnuninni. Hann sagði það nefnilega ekki. Hann tók hárrétt til orða. Hann sagði: Byggðastofnun á Ísafirði. Það er nefnilega ekkert útibú frá Byggðastofnun á Ísafirði eða Akureyri og verður ekki á Egilsstöðum heldur er Byggðastofnun á þessum stöðum með starfsemi sína.
    Þeir sem starfa við þessar stofnanir, hvort sem það er vestur á Ísafirði eða norður á Akureyri eða, væntanlega innan ekki langs tíma, austur á Egilsstöðum, sitja við ( Gripið fram í: Og á Sauðárkróki.) --- og á Sauðárkróki þarnæst, já, vonandi 1993 eins og stefnt er það --- nákvæmlega sömu tækin og tólin og starfsmenn stofnunarinnar inni við Rauðarárstíg og þeir vinna nákvæmlega sömu verkin. Þetta er sú bylting sem orðið hefur í dag. Þess vegna er hægt að tala um þessi mál og koma þeim í framkvæmd sem var nánast ógjörningur áður. Á þessu þurfum við að átta okkur.
    Hv. 1. þm. Reykn. sagði að við gengjum kannski svolítið á skjön við þær ætlanir sem menn hefðu heitstrengingar um, að fækka í opinberum rekstri, og þess vegna væri tillagan ekki rétt orðuð hjá okkur. Hún er hárrétt orðuð, virðulegi þm., vegna þess að við erum að tala um að meiri hluti nýrra starfa verði til utan höfuðborgarsvæðisins. Ef meining ríkisstjórnarinnar er sú að selja ríkisfyrirtækin, einkavæða allt, trúlega meira en í gegnum gjaldþrotin, er það nú einmitt svo að eftirfarandi er tekið fram í greinargerð með þáltill., virðulegi forseti:
    ,,Nauðsynlegt er að ríkisvaldið leiti samráðs við aðra aðila er þetta varðar um að þeir auki og efli þjónustustarfsemi sína sem mest á landsbyggðinni``. Ríkisvaldið getur nefnilega á mjög margan hátt stutt og hvatt einkaaðila til þess að auka og efla þjónustu sína og starfsemi utan höfuðborgarsvæðisins. Hún getur gert það á margvíslegan hátt. Mér er það ljóst hversu einkageirinn vegur þungt í opinberri þjónustu. Þess vegna var þetta sett inn og tekið nógu rækilega fram.
    Hins vegar er rétt, eins og var kannski nálægt því sagt áðan af einum hv. ræðumanni, að það sem þarf í þessu máli er aðeins eitt, það er viljinn. Það er bara spurning um þetta: Viljum við þetta eða viljum við það ekki? Um það snýst málið. Er með þessum tillöguflutningi verið að fara fram á eitthvað sem er ósanngjarnt eða ómögulegt? Ég held ekki. Það er ekki ósanngjarnt að þessir kostir verði skoðaðir og eins mikið af störfum og hægt er verði fært út á land og það er enginn vafi á að það er mögulegt ef vilji er fyrir hendi. Það verður að koma í ljós hér í þingsölum hvort vilji er fyrir hendi, hvort menn eru tilbúnir til að gera þessa tilraun. Ég trúi því að svo sé og vegna þeirra orða hv. 1. þm. Reykn. tek ég fram að ég las og skoðaði af mikilli athygli mjög ítarlega tillögu sem flutt var af Þorsteini Pálssyni og mörgum af þingmönnum Sjálfstfl. um byggðamál, mjög vel unnið plagg. Það er ekki hyldýpi á milli skoðana þeirra sem undir þá tillögu rita og þeirra sem hafa flutt þetta mál. Ég trúi því að Alþingi beri gæfu til þess að skoða þetta mál af vinsemd og skilningi.