Ný störf á vegum ríkisins

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 13:23:00 (4012)


     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ég tel það hafið yfir allan vafa að andi till. er með þeim hætti að um hana getur orðið mikil samstaða hér á þessu þingi. Hins vegar má um það deila hvort það er skynsamleg ráðstöfun að setja það fram sem markmið að ákveðið hlutfall af nýjum störfum verði til utan höfuðborgarsvæðisins. Í sjálfu sér er slík viljayfirlýsing góðra gjalda verð en það skiptir þó meira máli hvernig þessi mál eru í framkvæmd. Mér sýnist á mörgu að ögn muni sneyðast um ný störf á vegum ríkisins á næstu árum einfaldlega vegna þess að staða ríkissjóðs hefur verið afskaplega veik á undanförnum árum og því er eðlilegt að hvaða flokkur sem í ríkisstjórn er muni þess verða gætt að reyna að halda utan um þau útgjöld. Ég hefði því metið það svo að til þess að uppfylla þær óskir, sem eru mjög skýrar meðal margra þingmanna og ég held að mikill meiri hluti í þessu þingi beri í brjósti, að efla hag landsbyggðarinnar, sé skynsamlegri leið að leggja áherslu á flutning starfa á vegum ríkisins út á land miðað við þá stöðu sem ríkisfjármálin eru í.
    Ég vil taka það fram að flutningur starfa á vegum ríkisins út á land er erfitt verkefni. Það eru mörg ljón í veginum og þá kannski einkum og sér í lagi þeir sem starfa innan þessara stofnana. Aðferðin hefur raunar oftast verið sú að þegar rætt hefur verið um flutning ríkisstofnana út á land hefur ríkisvaldið snúið sér til starfsmanna þessara stofnana og spurt þá að því hvort þeim finnist ekki skynsamlegt að flytja sig út á land. Þeir hafa jafnan skrifað efnismiklar greinargerðir sem lúta að því að sanna það fyrir öllum aðilum að það sé afskaplega óskynsamlegt.

    Ég get ekki hjá því komist að blanda inn í þessar umræður þeim hugmyndum sem hafa verið um að flytja Byggðastofnun út á land og þá til Akureyrar. Raunar var eitt af stefnumiðum þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að gera það en sú hugmynd hefur mætt mikilli andstöðu innan stjórnar þeirrar stofnunar og minnir það örlítið á andstöðu sem varð innan Skógræktar ríkisins við flutning þess fyrirtækis austur á land. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þó að miðstöð Byggðastofnunar væri flutt til Akureyrar mundi Byggðastofnun enn starfa af fullum krafti á öðrum stöðum á landinu. Ég held hins vegar að mergurinn málsins í sambandi við flutning starfa á vegum ríkisins og ríkisstofnana út á land sé sá að þegar þessar stofnanir starfa þar verði viðhorf þeirra starfsmanna sem innan þeirra starfa breytt.
    Það er stundum sagt, og ég heyrði það sagt fyrir skömmu, að það væri svo að þegar opinberir starfsmenn flyttu stöðvar sínar út á land yrðu engir meiri ,,lókalpatríotar``, eins og það var orðað, og ég biðst afsökunar á að nota svo slæma íslensku, enda er gerð athugasemd við það, er það ekki? Ég bið virðulegan forseta velvirðingar á þessari slettu. Þetta er að sjálfsögðu rétt svo langt sem það nær, en ef þessi kenning er rétt á hún náttúrlega ekkert síður við þær stofnanir sem eru hér í Reykjavík. Þá eru þeir starfsmenn sem innan þeirra starfa náttúrlega mestir ,,lókalpatríotar``. Ég biðst afsökunar, virðulegi forseti. ( Forseti: Hv. þm. hlýtur að geta fundið íslenskt orð yfir lókalpatríota.) Ég mun freista þess, virðulegi forseti, að finna betra orð, en ég ætla að fá svolítinn umhugsunarfrest til þess. ( Gripið fram í: Hreppapólitíkus, er það ekki?) Það má deila um það, hv. þm., hvort pólitíkus er góð íslenska eða ekki. Þetta vil ég að komi hér fram vegna þess að þetta sjónarmið, sem skapast þarna innan stofnananna, breytist þegar þær eru fluttar út á land. Viðhorfin breytast.
    Að því er varðar þann grundvallarmun sem er á því að stofna til útibúa, hvort sem þau heita það eða ekki, úti á landi eða flytja miðstöðvar út á land er það svo að t.d. á samdráttartímum, eins og við lifum núna í ríkisrekstri, gætir mjög þeirrar tilhneigingar að draga fyrst saman úti á landi. Þetta hefur t.d. komið fram innan þeirrar ágætu stofnunar Skipulags ríkisins sem hefur starfsmann á Akureyri. Það hefur verið um það rætt að leggja þá stöðu niður þó svo að Skipulag ríkisins starfi nánast ekki neitt fyrir hin stóru þéttbýlissveitarfélög en starfsemi Skipulags ríkisins miðist mjög mikið við það að aðstoða hin smærri sveitarfélög við skipulagsstörf. Það er þess vegna ekki hægt að horfa fram hjá því að það skiptir talsverðu máli hvaðan horft er á rekstur slíkra ríkisstofnana, hvort það er héðan úr Reykjavík eða ekki. Ég held því að nauðsynlegur þáttur í stefnumörkun í flutningi starfa á vegum ríkisins út á land sé að taka til gaumgæfilegrar athugunar flutning stofnana frá Reykjavík út á land.
    Nefndarstörf í þessum efnum ættu nú ekki að vera mjög nauðynleg vegna þess að það vill svo til að fyrir liggur ótrúlega mikið af gögnum um þessi mál og er mér efst í huga að vitna þar í afar viðamikla skýrslu um flutning ríkisstofnana út á land sem hefur sennilega verið birt 1975. Að þeirri skýrslu stóð mjög vel mönnuð nefnd. Mig minnir endilega að formaður nefndarinnar hafi verið Ólafur Ragnar Grímsson sem þá var reyndar ekki farinn að gegna eins háum embættum og hann hefur gert síðan. Í þeirri skýrslu voru mjög margar hugmyndir um flutning ríkisstofnana út á land og m.a. tel ég mig muna það rétt að þar hafi verið lagt til að verkfræðideild Háskóla Íslands og Tækniskólinn yrðu fluttir til Akureyrar og er það þó aðeins brot af þeim ríkisrekstri sem þangað átti að flytja.
    Annar mjög áberandi nefndarmaður í nefndinni var Jón Baldvin Hannibalsson. Hann hefur átt það til að gleyma hversu rækilega hann studdi það á sínum tíma að efla starfsemi háskóla á Akureyri í nefndaráliti sínu sem er mjög mikil og gagnleg lesning fyrir alla hlutaðeigandi aðila.