Ný störf á vegum ríkisins

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 13:31:00 (4013)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér að taka til máls í umræðunni þar sem velflest hefur komið fram sem um hana er að segja og einnig vegna þess að mál sem ég mun flytja á eftir er að hluta til skylt þessu.
    Það eru einkum þau atriði er varða störf í opinberri þjónustu sem ráku mig hingað í ræðustól. Mig langar til þess að gera athugasemdir við að gengið sé út frá því sem gefnu að mjög þurfi að fækka störfum í opinberri þjónustu á næstu árum. Inn í þá umræðu langar mig að draga þá athugasemd að oft og tíðum þýðir fækkun starfa í opinberri þjónustu minni og lélegri þjónustu við fólk, borgara þessa lands. Það tel ég mjög háskalega stefnu.
    Þá gerist tvennt. Annars vegar vaxandi atvinnuleysi ef ekkert annað kemur í staðinn og það að sú þjónustuskerðing mundi í rauninni þýða meira álag á heimilin, ekki síst konurnar á heimilunum sem verða þá að hlaupa undir bagga og taka við þar sem opinber þjónusta er ekki veitt. Ég á einkum við þann samdrátt sem fyrirhugaður er í heilsugæslu og þann flata niðurskurð sem við þegar stöndum frammi fyrir. Einnig má nefna að flatur niðurskurður í skólakerfinu merkir jafnframt að meiri krafa er gerð til heimilanna, krafa sem þau eru mjög misvel í stakk búin að mæta. Fækkun opinberra starfsmanna merkir því ekki einungis að verið sé að draga úr ríkisútgjöldum heldur einnig að verið sé að auka ríkisútgjöld framtíðarinnar og auka álag á heimili í mörgum tilvikum. Ég tel að menn verði að líta á það.
    Einnig vil ég taka það fram, ef það hefur ekki komið fram fyrr í umræðunni, að meginhluti atvinnuleysis um þessar mundir er einkum meðal kvenna úti á landsbyggðinni. Í janúar var 7,3% atvinnuleysi meðal kvenna á landsbyggðinni. Atvinnuleysi karla á landsbyggðinni var, að mig minnir, 4,6% sem er allt of mikið líka. Á höfuðborgarsvæðinu hafa menn haft áhyggjur af vaxandi atvinnuleysi og ekki að

ástæðulausu. Þar er þó atvinnuleysi, sem betur fer, ekki orðið svo slæmt. Þetta bendir mönnum jafnframt á að gera þarf eitthvað sérstakt varðandi atvinnulíf á landsbyggðinni. Það mál höfum við margoft rætt í þingsölum og kvennalistakonur oft og tíðum haft frumkvæði að.
    Ég vil að lokum taka undir það að bætt fjarskipti og sú framþróun sem orðið hefur í tölvuvinnslu auðveldar mjög að flytja margs konar opinbera stjórnsýslu víðs vegar um landið. Ég vil minna á þáltill. okkar kvennalistakvenna sem varðaði þau mál og átak í sambandi við fjarvinnslu. Þar var einkum beint tilmælum til opinberra aðila, svo sem ráðuneyta, um að flytja verkefni til fjarvinnslu víðs vegar um landið. Sú tillaga fékk góða umfjöllun og samþykkt á Alþingi þannig að þegar er búið að lýsa yfir vilja þingsins. Því miður höfum við ekki enn séð að um víðtækt átak sé að ræða enda ákveðnir byrunarörðugleikar því samfara. Vonast ég til að í framtíðinni verði þessari stefnumörkun Alþingis fylgt betur eftir en nú er orðið.