Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 13:59:00 (4016)


     Hrafnkell A. Jónsson :
    Virðulegi forseti. Sú till. sem er til umræðu lýtur að átaki í atvinnumálum á Suðurnesjum og aðgerðum vegna mikils atvinnuleysis kvenna þar. Þarna er tekið á vaxandi vandamáli sem verkafólk vítt og breitt um landið stendur frammi fyrir í dag. Full ástæða er til að taka á þessum málum, gera marktækar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir vaxandi atvinnuleysi sem er því miður ekki nein ný bóla.
    Mér þótti ræða hv. þm. Stefáns Guðmundssonar afskaplega sérkennileg, ég get ekki að því gert. Eftir að flokkur hans, Framsfl., hefur verið í ríkisstjórn nær óslitið í 20 ár þá kemur hann hér og leyfir sér að halda því fram að vaxandi atvinnuleysi á Suðurnesjum og víðs vegar um landið sé afleiðing einhverrar ríkisstjórnar sem búin er að sitja í tæpt ár. Því miður er það ástand sem nú ríkir í atvinnumálum ekki afleiðing stjórnarstefnu nokkurra undanfarinna mánaða heldur afleiðing þeirra ráðstafana sem ríkisstjórnir hafa gert til margra ára í nær tvo áratugi. Því miður. ( ÓÞÞ: Og hvenær komst þá núv. ríkisstjórn til valda?) Virðulegi þingmaður, núv. ríkisstjórn tók við völdum 1. maí á síðasta ári. ( FI: Nei, nei.) 30. apríl? ( FI: Já.) Ég þakka virðulegum þingmanni Finni Ingólfssyni að leiðrétta mig. Það er alveg bráðnauðsynlegt að kenna okkur ungunum að haga okkur hér í þessari virðulegu samkomu. En jafnframt vil ég rifja upp aftur fyrir hv. þm. Finni Ingólfssyni eins og öðrum hv. þm. Framsfl. að þeir hljóta einhvern tímann að þurfa að bera ábyrgð á því sem flokkur þeirra gerir. Þeir geta ekki alltaf talað eins og þeir hefðu hvergi komið nálægt því sem gerst hefur. Þeir komast ekkert undan því að Framsfl. hefur verið í ríkisstjórn til margra undanfarinna ára. Þeir komast ekkert undan því að það atvinnuástand sem launafólk stendur nú frammi fyrir víðs vegar um landið er afleiðing af því sem þeir eða flokkur þeirra gerði eða gerði ekki. Ég tel að mjög brýnt sé að menn líti á þetta um leið og ég tek undir það að vissulega þarf að gera átak í atvinnumálum á Suðurnesjum eins og vítt og breitt um landið.
    Við stöndum kannski núna frammi fyrir því ástandi sem við höfum blessunarlega verið laus við um margra áratuga skeið, en það er ekki eitthvað sem er að detta ofan úr skýjunum akkúrat á þessum síðustu vikum. Það hefur átt sér aðdraganda og þann aðdraganda má rekja til þess að menn tóku rangar ákvarðanir. Ekki á síðasta ári, heldur á síðustu árum. Auðvitað bera aðrir ábyrgð á því með framsóknarmönnum, þeir hafa ekki verið einir við stjórn, en þeir hafa hins vegar haldið um stjórnartaumana með öðrum nær undantekningarlaust frá árinu 1971.