Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 14:03:00 (4017)


     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Mér finnst nokkuð langt til seilst ef hv. þm. Hrafnkell Jónsson vill kenna mér um að ég hafi verið að skjótast undan ábyrgð á stjórnarstefnu Framsfl. með því að leiðrétta hvenær ríkisstjórnin, sem hann styður, kom til valda. Það var einfaldlega það sem ég gerði úr sæti mínu.
    Það er endalaust deiluefni hverjum erfiðleikarnir eru að kenna og í hugum okkar framsóknarmanna er fyrst og fremst tekist á um tvær mismunandi stjórnarstefnur. Annars vegar það hvernig menn bregðast við í erfiðleikum og hins vegar hvernig menn bregðast ekki við. Menn þurfa ekki að fara lengra aftur en til ársins 1983 og sjá að þeir erfiðleikar sem núna eru á þessum tíma eru hreinir smámunir miðað við þá erfiðleika sem takast þurfti á við árið 1983. En það sem þar skilur á milli er að þar kom annars vegar ríkisstjórn til valda sem fannst að hún ætti að hafa það hlutverk að takast á við vandamálin, takast á við þá erfiðleika sem við blöstu í atvinnulífinu. Þá var spáð að um 5.000--7.000 manns yrðu atvinnulausir ef ekkert yrði að gert. Nú er spáð 5.000 manna atvinnuleysi og það er sennilega að nást. Ríkisstjórninni er að takast að koma á 5.000 manna atvinnuleysi. ( ÓÞÞ: Það verður meira.) Það verður sennilega meira. En ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem tók við árið 1983, ákvað að takast á við þessa erfiðleika með því að tryggja rekstrargrundvöll atvinnulífsins, koma á atvinnu fyrir það fólk sem blasti við að mundi missa atvinnuna. Hvernig eru þessir erfiðleikar núna í samanburði við það sem var árið 1983? Árið 1983 var þorskveiði hér í kringum 300 þús. tonn, 292 þús. tonn. Á þessu ári munu menn veiða meiri þorsk en á árinu 1983. Árið 1983 máttu menn ekki veiða eitt einasta tonn af loðnu. Á þessu ári geta menn veitt 700 þús. tonn af loðnu. Árið 1983 var engin rækjuveiði eða sáralítil. Menn voru ekki farnir að kanna djúpsjávarmiðin í rækjuveiðunum. Það var eitt af verkefnum þáv. sjútvrh. að láta rannsaka þau mið og leita þar eftir veiðum. Það tókst þannig að metrækjuveiði verður á þessu ári. Verðbólgan 1983 var 140%, hún er 5% á þessu ári. Það var ekki þessi ríkisstjórn sem náði verðbólgunni niður í 5%. Fyrri ríkisstjórn tókst það í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Þannig mætti lengi bera saman og sjá hvernig ríkisstjórnir bregðast við erfiðleikunum. Það er mismunurinn á því hvernig þessi ríkisstjórn bregst við með því að segja við launafólk í landinu og segja við atvinnulífið: Okkur kemur þetta ekkert við, þið verðið að bjarga ykkur sjálfir.
    Fyrri ríkisstjórn, hvort sem það var ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem tók við árið 1988, eða 1983, fannst hún hefði það hlutverk að tryggja atvinnu í landinu og skapa þau rekstrarskilyrði atvinnulífsins að hér væri lífvænlegt en sagði ekki: Okkur kemur þetta ekkert við.
    Þær skuldbreytingar sem gripið var til árið 1988, á þeim tíma þegar erfiðleikar blöstu við, til þess að tryggja rekstrargrundvöll atvinnulífsins gerðu auðvitað ráð fyrir því að atvinnulífið hefði rekstrarskilyrði og meðan framsóknarmenn fóru með forustu efnahagsmála á þeim tíma í sjávarútvegi og í forsrn., sem fer með yfirstjórn efnahagsmálanna, þá fannst mönnum hlutverk sitt á þeim bæ vera að tryggja atvinnulífinu í landinu rekstrarskilyrði. Enda tókst það árið 1990. Þá var sjávarútvegurinn í fyrsta skipti í langan tíma rekinn með 2,5% hagnaði. Árið 1991 er hann rekinn með 1% hagnaði. Það er hagnaður í sjávarútveginum til að byrja með í upphafi árs 1991, en eftir að ríkisstjórnin tekur við og gerir ekki neitt og segir einfaldlega ,,okkur kemur þetta einfaldlega ekkert við`` fer atvinnulífið fyrst að tapa. Núna við þessa stöðu er því spáð að tap sjávarútvegsins sé 4%. Þá er ekki, hv. þm., farið að taka tillit til þeirra álagna sem voru lagðar á sjávarútveginn í formi ýmiss konar skattlagningar í janúar þegar bandormurinn var samþykktur. Það eru viðbótarútgjöld fyrir sjávarútveginn sem tapar í dag í kringum 4%, 650 millj. Útgerðin í landinu veltir um 40--45 milljörðum þannig að þetta er viðbótartap fyrir útgerðina upp á 2% sem ríkisstjórnin er einfaldlega að leggja á atvinnulífið. Það voru ekki flokkar sem eru núna í stjórnarandstöðu sem þetta samþykktu. Það voru ríkisstjórnarflokkarnir og sá flokkur sem hafði forustu um það var Sjálfstfl. sem hv. þm. Hrafnkell Jónsson styður.
    Þannig mætti auðvitað lengi telja. Að fara langt aftur í tímann til þess að segja: Ja, þetta er allt saman fyrri ríkisstjórnum að kenna, allt saman Framsfl. að kenna. Framsfl. er ekkert að skjóta sér undan ábyrgð, það er mikið langt frá því. Ýmiss konar erfiðleikar og sjálfsagt rangar ákvarðanir hafa verið teknar á mörgum sviðum. Framsfl. er tilbúinn til þess að axla alla þá ábyrgð sem er samfara því en hann vill líka að það komi fram að það sem núna er gert og það sem menn aðhafast ekkert það er ekki Framsfl. að kenna, það er einfaldlega vandamál þeirra flokka sem núna stjórna, getuleysi þeirra til þess að takast á við

vandamálin.