Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 14:17:00 (4019)


     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nú svo að við erum kannski búin að stækka Reykjanesið dálítið. Menn eru farnir að tala almennt um ástand atvinnumála í landinu og það er í sjálfu sér gott að taka þá umræðu hér upp. En ég veit að hv. þm. Hrafnkell Jónsson er velviljaður maður og hann biður um lausnir. Ég skil það af hans máli að hann finnur ekki þær lausnir í þeim flokki sem hann er í. Við framsóknarmenn höfum auðvitað þær lausnir og hann getur aðstoðað þingið og þjóðina við að þær lausnir komi fram. Það er með því að hætta stuðningi við þessa ríkisstjórn. Með því að losna við ríkisstjórnina fá menn betri ríkisstjórn og aðrar lausnir en þessi ríkisstjórn hefur leitað. ( HAJ: Hvaða lausnir?) Nú hef ég ekki hér nema sáralítinn tíma því þetta er andsvar, hv. þm., til að skýra nákvæmlega út hvaða lausnir við framsóknarmenn höfum á þessum vandamálum. En þær hafa auðvitað, hv. þm., verið skýrðar fyrir þér og þjóðinni og var síðast gert í ágætu sjónvarpsviðtali í gærkvöldi sem þú vitnaðir í, m.a. með því að menn hefðu viljað tryggja hér áframhaldandi þjóðarsátt sem þarf m.a. að taka tillit til þess að vaxtastigið sé lágt í landinu. Þú vitnaðir í ágætan bankastjóra, Halldór Guðbjarnason, sem sagði að vextirnir væru síður en svo hærri hér á landi en annars staðar. Það kann vel að vera rétt, ég ætla ekki að draga það í efa. En hvað hafa þeir þá verið þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar fór frá? Þá er alveg ljóst að þeir hafa verið miklu lægri í samanburði við aðrar þjóðir. Það er kannski sá samanburður, hv. þm., sem ekki skiptir öllu máli, þ.e.

hvert vaxtastigið er annars staðar heldur það hvernig okkur tekst að halda vöxtum hér niðri. (Forseti hringir.) Fyrirgefðu, virðulegi forseti, ég er rétt að ljúka máli mínu. En þær leiðir sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur valið í niðurskurði á ýmsum sviðum opinberra framkvæmda munu þegar fram líða stundir, og það mun hv. þm. sjá þegar á þetta ár líður, ekki skila því sem áætlað var vegna þess að allar þær hugmyndir sem uppi eru um sparnað á ýmsum sviðum munu ekki ná fram að ganga.