Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 14:19:00 (4021)


     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek það auðvitað gott og gilt þótt menn fari aðeins út fyrir efnið og ræði almennt stefnu ríkisstjórnarinnar og hvaða áhrif hún hefur á atvinnumál hér á landi en kaflar í ræðu seinasta ræðumanns voru allfjarri því sem hér er til umræðu.     Vissulega er hluti af vandanum á Suðurnesjum, þessu mikla atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum, vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar núna að undanförnu. Í rauninni er þar verið að bæta gráu ofan á svart og við því máttum við ekki. Sá hluti lýtur ekki síst að því að fyrirsjáanlegur er samdráttur í opinberri þjónustu og atvinnuleysi því samfara. Það er jafnframt vegna þess að með vaxtabyrði fyrirtækjanna --- ég ætla ekki að nota þennan stutta tíma til að fara út í hártoganir um hverjir vextir eru hér samanborið við önnur nágrannalönd --- er slík að þau standa mjög illa. Og allir eru sammála um það, bæði vinnuveitendur og launþegar, að vaxtalækkun sé eitt aðaltækið sem menn hafa til að ná betra ástandi í fyrirtækjum. Það þarf að laga vextina. Um þetta deila engir. Ég held því að þetta tvennt sérstaklega varði atvinnumál kvenna á Suðurnesjum eins og annars staðar og magni það slæma ástand sem þar er.