Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 14:37:00 (4025)


     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er svolítið einkennilegt þegar umræður fara hér fram og talað er til Framsfl., að þá er eitt alveg klárt: Framsfl. er kennt um allt sem miður hefur farið. Það virðist ætíð standa upp úr mönnum. Allt sem hefur farið miður í 20 ár er Framsfl. að kenna. Ég tók það skýrt fram, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, og vil síst af öllu þurfa að eiga deilur við þann ágæta mann hér, við þurfum ekki að deila um þetta því svo mikið veit hv. þm. um þessi mál að við þurfum ekki að deila, ég veit að við erum sammála. Ég margtók það fram í máli mínu að Framsfl. hefði ekki verið einn í ríkisstjórn. Við hefðum átt samleið með mörgum góðum mönnum við að koma þessum málum fram, en við hefðum brúað bilið milli öfganna. Framsfl. hefði gert það og þess vegna hefði okkur tekist að byggja upp þjóðfélag sem er betra en hjá flestum öðrum þjóðum. Nú eru öfgarnar komnar til valda og nú er verið að mölva það þjóðfélag niður sem Framsfl. tókst að byggja upp með aðstoð annarra góðra manna.
    En hvað landhelginni viðkemur, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, og það veit þingmaðurinn að landhelgin við Ísland hefur aldrei verið færð út nema Framsfl. hafi verið í ríkisstjórn. Hún hefur aldrei verið færð út nema Framsfl. hafi átt aðild að ríkisstjórn.