Atvinnumál á Suðurnesjum

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 14:54:00 (4028)

     Hrafnkell A. Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólafur Þórðarson upplýsti mig um stórmerkilegt atriði sem ég er reyndar mjög sáttur við. Hann sagði sem sé að fulltrúi lýðræðisaflanna í Sovétríkjunum, Boris Jeltsín, væri fulltrúi Sjálfstfl. og tek ég það auðvitað þannig að leiðtogar sovéska kommúnistaflokksins, sem nú er liðinn undir lok, hafi verið fulltrúar væntanlega Framsfl. og trúlega bíða Framsfl. sömu örlög og sovéska kommúnistaflokksins og það er vel. ( Gripið fram í: Góð ályktun.) Hv. þm. fór að tala um sölu á síld. ( ÓÞÞ: Nú gleymir þú eigin fortíð.) Nei, ég gleymi ekki eigin fortíð en ( ÓÞÞ: Þú hefur verið framsóknarmaður.) Jú, ég var einu sinni framsóknarmaður, því miður.
    En hv. þm. fór að tala hér um síld og það kemur mér dálítið spánskt fyrir sjónir þegar hann fer að bera það á mig að ég hafi staðið gegn því að það væri söltuð síld á Austurlandi. Við stóðum að því forustumenn í verkalýðshreyfingunni á síðasta hausti ( ÓÞÞ: Ég bar það ekki . . .  ) að leita eftir því að það væri flýtt fyrir samningum um sölu á saltsíld til rússneska lýðveldisins sem áður hétu Sovétríkin. Af því tilefni átti ég tal við m.a. ýmsa af forustumönnum Sjálfstfl., þar á meðal hæstv. forsrh., og ég fullyrði að þar var ekki um að ræða þröskuld á þeirri leið. Ég hef hins vegar ekki til að bera þá þekkingu sem gerir mér kleift að útskýra hverjir það voru sem í sjálfu sér þvældust fyrir því að niðurstaða tækist í tíma í samningum á saltsíld en það er fullvíst að ef það hefði tekist í tíma hefði atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum verið mun minna en það er nú. Og einmitt er mér þetta hugstætt vegna þess að einn af þeim sem fastast fylgdu þessu eftir innan verkalýðshreyfingarinnar var formaður Verkalýðsfélagsins í Grindavík. Það voru greinilegir hagsmunir okkar fólks að tækist að koma á samningum um sölu á saltsíld. Það tókst undir það síðasta og ég vona að það leggi grunninn að betri atvinnu á næsta hausti.