Atvinnumál á Suðurnesjum

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 10:36:00 (4032)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Það sem ég ætla að ræða hér er framhald umræðu sem var fjörleg og góð í gær. Efni umræðunnar var þáltill. sem hér liggur fyrir um átak í atvinnumálum á Suðurnesjum og aðgerðir vegna mikils atvinnuleysis kvenna þar.
    Það verður að segjast eins og er að umræðan í gær var afskaplega fróðleg og hún var eftir atvikum, getum við sagt, gagnleg, ekki síst kannski fyrir nýliða hér á Alþingi vegna þess að hér heyrðum við gert upp við stjórnarstefnur og stjórnarherra undanfarinna a.m.k. tveggja áratuga. Í þessu sambandi var rætt um landhelgismál, um síldarsöltun, um sovéska stjórnmálamenn og sá ættbogi allur veginn og metinn og misléttvægur fundinn, og allt var þetta auðvitað vegna þess að hér erum við að reyna að finna einhverjar leiðir til þess að reyna að bæta úr slæmu atvinnuástandi kvenna á Suðurnesjum. Íslenskir flokksformenn voru mjög plássfrekir í umræðunni í gær og eru greinilega, ef marka má orð þingmanna, miklir þjóðskörungar. Þeir lyfta grettistökum, brjóta blöð og vinna kraftaverk og byggja upp heilu samfélögin liggur við eigin hendi, ef marka má orð þeirra. Hér var sagan og fortíðin skoðuð mjög gaumgæfilega og auðvitað voru menn ekki að leita að neinum sökudólgum, alls ekki. Þingmenn gera það yfirleitt ekki, þeir leita yfirleitt ekki að sökudólgum. Þeir eru að draga lærdóma. Þeir eru að draga lærdóma af mistökum fortíðarinnar og reyna að byggja á þeim nýjar kenningar og koma með nýjar hugmyndir um hvað gera megi.
    Ég ætla heldur ekki að leita hér að neinum sérstökum sökudólgum. Ég ætla að reyna að velta fyrir mér hvernig á því standi að atvinnuleysið er að verða svo mikið sem raun ber vitni, ekki síst hjá konum og ekki síst hjá konum á Suðurnesjum. Það eru auðvitað margir samverkandi þættir þar að verki. Í fyrsta lagi --- og það fannst mér ekki nógsamlega dregið fram í umræðunni í gær --- eru atvinnuhættir almennt að breytast í landinu, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði. Störfum hefur fækkað við þessar breytingar sem eru að hluta til óhjákvæmilegar vegna þess að þær stafa af nýrri tækni sem menn eru farnir að nota í þessum atvinnugreinum og vegna breyttra neysluhátta í samfélaginu almennt, ekki bara hér á landi heldur víða um lönd. Þetta gerir það að verkum að störfum fækkar sem sagt í grundvallargreinum eins og sjávarútvegi og landbúnaði. Ég held að við þurfum t.d. að skoða landbúnaðinn sérstaklega hvað þetta varðar því ég held að það sé mikið og dulið atvinnuleysi meðal kvenna í landbúnaði. Búin eru orðin þannig að þau bera ekki nema eitt stöðugildi og þá er það oft og tíðum þannig að konur hafa ekki tekjur af sinni vinnu á býlunum og hafa ekki heldur atvinnu þar og ekki neitt annað að sækja vegna þess hversu fábreytt atvinnuástandið er í nærsveitum. Þetta er annar meginþátturinn.
    Hinn þátturinn held ég að sé kannski ekki síst þessi minnkandi verðbólga sem hefur verið á undanförnum árum. Menn hafa verið að kappkosta við að ná verðbólgunni niður, sem er auðvitað mjög gott, en í staðinn höfum við fengið háa raunvexti og samdrátt í framleiðslu og aukið atvinnuleysi. Við höfum þurft að greiða lækkun verðbólgunnar þessu verði og ég ætla svo sem alls ekki að lasta það að reynt sé að ná verðbólgunni niður og það er auðvitað mjög mikilvægt, en þetta hefur þýtt það að á örskömmum tíma hafa Íslendingar farið úr neikvæðum raunvöxtum, bæði heimilin í landinu og atvinnuvegirnir, í mjög háa raunvexti og þetta er gífurleg breyting sem er að eiga sér stað hér á tiltölulega skömmum tíma.
    Verðbólgan hefur verið skömmuð mikið á undanförnum árum og talin undirrót alls ills en hvað sem um hana má segja, þá var hún samt framkvæmdahvetjandi. Það fylgdi henni vissulega ákveðið happdrættishugarfar en um leið ýtti hún undir frumkvæði og skjótar athafnir fólks, það var um að gera að framkvæma í dag og bíða alls ekki til morguns vegna þess að þá gæti það verið orðið of seint eða fólk verið búið að missa af ákveðinni lest. Spurningin var alltaf sú að skyrpa bara í lófana og framkvæma strax í dag og bíða ekki til morguns. Maður fann þetta mjög vel þegar maður var búsettur á Norðurlöndunum og kom svo hingað heim til Íslands, þennan gífurlega mun á hugarfari. Og ég held að þetta hugarfar hafi að hluta til stafað af verðbólgunni og hún hafi þannig verið framkvæmdahvetjandi. Nú erum við hins vegar að fara inn í tímabil með talsverðu atvinnuleysi og háum raunvöxtum sem er framkvæmdaletjandi hvort tveggja.

    Það sem ég er að rekja hér er kannski ekki hægt að kenna neinu einu stjórnvaldi um eða neinum einum flokki eins og kannski er ákveðin tilhneiging til en hins vegar er hægt að áfellast stjórnvöld, burt séð frá því hvers flokks þau eru, fyrir að bregðast ekki við þessum breytingum í tíma eða með réttum hætti, fyrir það að vera ekki nógu framsýn og fyrir að vera of einsýn. Ef við tökum Suðurnesin, þá er ljóst að á undanförnum árum hafa menn í atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum fyrst og fremst horft til álvers og talið að það væri allra meina bót. Það mundi skapa ný störf og vera sú innspýting sem Suðurnesin þyrftu á að halda. Það hefur hins vegar margoft verið sagt hér og verður aldrei nógsamlega ítrekað að það er ekki atvinnusköpun fyrir konur. Menn voru að vísu með einhverjar hugmyndir um að það væri hægt að setja einhverja jafnréttisáætlun í álverinu og svo og svo margar konur fengju þar störf. En það er ekki hægt að horfa fram hjá því að vinnumarkaðurinn er kynskiptur og það breytist ekki með einni jafnréttisáætlun í einu álveri. Þess vegna var það líka mjög athyglisvert þegar ljóst var að uppbygging álvers rynni út í sandinn, þá voru viðtöl í sjónvarpinu við fólk á Suðurnesjum. Og það var áberandi í viðtölunum við konurnar að þó að þeim þætti það kannski ekki gott að þessi atvinnuuppbygging kæmi ekki þarna þá var það þeim ekkert stóráfall vegna þess að þær vissu vel að konur fengju ekki þarna vinnu, þetta yrði ekki atvinnusköpun fyrir konur. Þetta var þeim ekkert stóráfall vegna þess að þær höfðu ekki bundið neinar vonir við þetta álver. Þær höfðu ekki verið með neinar væntingar.
    Í atvinnumálum okkar þarf mjög margt að gerast. Það þurfa margir hlutir að fara af stað samhliða og við verðum að hafa það í huga að það er ekkert of smátt til að gefa því gaum. Konur hafa stundum verið sakaðar um það að hugsa of smátt og þess eru dæmi að konur sem hafa verið að leita sér eftir lánum til þess að byggja upp sína eigin atvinnu hafi fengið synjun vegna þess að það hefur varla þótt taka því að veita þeim lán, hugmyndir þeirra væru ekki nógu stórtækar. En á svona smáum hugmyndum er hægt að byggja upp og auka við þannig að af því skapist nokkur atvinna.
    Í þessu sambandi langar mig að minna á þáltill. sem Kvennalistinn flutti á síðasta kjörtímabili um að komið yrði upp sérstakri deild í Byggðastofnun til þess að lána konum, ýta undir frumkvæði kvenna í atvinnumálum, veita þeim lán til þess að koma þeim af stað í eigin atvinnurekstri, í eigin atvinnusköpun. Ég held að það sé einmitt þetta sem er svo mikilvægt núna í atvinnumálum okkar, þ.e. að ýta undir frumkvæði þessara fjölmörgu einstaklinga sem eru úti um allt land með hugmyndir en treysta sér kannski ekki af stað með þær vegna þess að þeir vilja ekki taka lán, þeir vilja ekki veðsetja heimilin sín fyrir slíkum lánum og þess vegna verður kannski aldrei neitt úr neinu.
    Að undanförnu hafa menn mikið talað um erfiðleikana sem eru í íslenskum atvinnumálum og vissulega stöndum við Íslendingar núna á ákveðnum tímamótum og stöndum andspænis ákveðnum erfiðleikum, ekki bara innan lands heldur stöndum við líka á vegamótum í alþjóðlegu samhengi. Allt eru þetta auðvitað hlutir sem við þurfum að takast á við, jafnvel með nýjum hætti en það er ekkert slíkt stóráfall sem hér hefur átt sér stað og ekkert slíkt stóráfall yfirvofandi að það þurfi að drepa allt í dróma og það þurfi að draga kjark úr fólki. --- (Forseti hringir.) Hæstv. forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. --- Það sem við þurfum er, eins og hér kom fram hjá einum þingmanni í gær, að vinna okkur út úr þessum vanda saman og við þurfum ákveðinn lágmarkssamnefnara. Þetta er svo lítil þjóð að hún þarf ákveðna sátt um grundvallaratriði en því miður verður það að segjast varðandi þá ríkisstjórn sem nú situr að hún virðist enga sátt vilja. Hún vill helst hafa allt upp í loft. Í öllum ráðuneytum er nú verið að endurskoða alls kyns lagabálka og einungis stjórnarliðar virðast koma þar að málum. Þetta má ekki gerast. Við þurfum ákveðna sátt um hlutina, við þurfum ákveðinn lágmarkssamnefnara. Þannig vinnum við okkur út úr þessu, öðruvísi ekki.