Atvinnumál á Suðurnesjum

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 11:06:00 (4036)


     Karl Steinar Guðnason :
    Virðulegi forseti. Nú er tillaga rædd um átak í atvinnumálum á Suðurnesjum og aðgerðir vegna mikils atvinnuleysis kvenna þar. Ég vil upplýsa það hér að þar eru líka mjög margir karlar atvinnulausir. ( AÓB: Það kom fram í framsöguræðu.) Og ég furða mig á því að þingmenn ætli sér að leysa aðeins atvinnumál annars kynsins. Þykir það mjög merkilegt hvernig á málum er haldið hjá Kvennalistanum.
    Að öðru leyti finnst mér það undarlegt að í þessari tillögu eru engar hugmyndir um hvers konar átak þetta eigi að vera. Það er hvergi leiðarhnoða um hvað eigi að setja fram eða hvernig og þess vegna er þessi tillaga um sáralítið annað en það að gera átak um eitthvað. A.m.k. hefði ég og mínir félagar, fólkið þarna suður frá gjarnan viljað fá einhverjar upplýsingar, upplýsingar um það hvað annað og meira er hægt að gera heldur en verið er þó að reyna að gera. Það liggur ekki fyrir hér.
    Það hefði gjarnan þurft að koma fram í þessari tillögu og vera skýrt hvernig tillöguhöfundar ætluðu sér að standa að málum. En kannski á þetta að vera eins konar uppbót frá því þegar það var tilkynnt að ekki kæmi til byggingar álvers, þá kom fulltrúi Kvennalistans fram í sjónvarpi og það hlakkaði í henni yfir því að sú ákvörðun var tekin. Það var köld kveðja til kvenna á Suðurnesjum og það voru margar sem fundu að því. Það var köld kveðja.
    Það hefur verið upplýst að það var möguleiki á því að allt að 30% af starfandi fólki í nýju álveri gætu orðið konur og það var líka reiknað með því að hvert starfstækifæri í álveri mætti margfalda a.m.k. með fjórum vegna þeirrar þjónustu sem það gæfi af sér. Ég og fleiri og reyndar þeir sem ætluðu sér að byggja álver trúðu því að það yrði gert. Það voru utanaðkomandi ástæður, ófyrirsjáanlegar, sem urðu þess valdandi að álver var ekki byggt. Bygging nýs álvers hefði verið mjög þýðingarmikil fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum. En þeir sem hlökkuðu yfir því að það var ekki byggt, una kannski vel sínum hag í dag, en það gera þeir ekki sem atvinnulausir eru. En menn vonast til þess og vænta þess að álver verði byggt og fleira gert til atvinnuuppbyggingar á þessu svæði sem því miður hefur farið mjög illa út úr kvótakerfinu. Þaðan hafa streymt skip, kvóti verið seldur í burtu og þar hefur verið viðvarandi atvinnuleysi í langan tíma. Eins og hér var upplýst áðan eru ýmsar aðgerðir í farvatninu og það er reynt eins og mögulegt er að koma málum þannig fyrir að atvinnuleysi á Suðurnesjum verði upprætt.
    En ég vil líka upplýsa að gæftaleysi hefur verið mikið þar suður frá og það var síðast í nóvember, það er svo langt síðan, að það gaf fjóra daga á sjó í viku. Því miður sjáum við fram á að í fiskvinnslu verða miklir erfiðleikar vegna þess að það er eins konar þjóðarsátt um það að minnka aflann um 20%. Það hefur mjög alvarleg áhrif sem erfitt er að eiga við, það er alveg öruggt mál.
    Vegna þess að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var með köpuryrði í minn garð þá vil ég geta þess að hann var ráðherra á sínum tíma og á sínum tíma var hann þingflokksformaður Alþb. þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens var við lýði. Þá var gerður málefnasamningur og í þeim málefnasamningi var ákveðið að gera átak í atvinnumálum á Suðurnesjum. Og hvar haldið þið að sú grein hafi verið sett í málefnasamninginn? Hún var sett í kaflann um utanríkismál. Þekking þessara manna á tilveru fólksins á Suðurnesjum, atvinnuháttum og atvinnulífi var slík að átakið var sett undir kaflann um utanríkismál.
    Ég minni á að árið 1987 voru störf í sjávarútvegi í Keflavík einni fleiri en á Höfn í Hornafirði og á Eskifirði og þá eru ótalin Grindavík, Sandgerði, Garður, Njarðvík, Vogar og Hafnir. Ég vona að það takist sem allra fyrst að komast út úr þessum mikla vanda. Vandinn er mikill. En það gerum við ekki með því að gera átak um eitthvað ótilgreint. Menn eru hörðum höndum að reyna að bregðast við þessum vanda. Og ég vona að gæftir munu gefa okkur það að fiskur berist meira á land og ég vænti þess að nýir samningar við Evrópubandalagið verði til þess að vaxtarbroddur sjávarútvegs verði á Suðurnesjum. Ég vænti þess að þá muni rísa upp ýmis mörg smáfyrirtæki sem muni sinna markaðnum í Evrópu og þar muni skapast

líflegt atvinnulíf. Ég minni á það að þeir sem tala nú helst gegn slíkum samningum eru einmitt tillöguhöfundar.
    Ég legg á að áherslu að áfram verði haldið af ríkisstjórn og heimamönnum að freista þess að skapa ný atvinnutækifæri á Suðurnesjum, uppræta atvinnuleysið, atvinnuleysi sem ekki hefur aðeins skapast af erfiðleikum í sjávarútvegi og þjónustu heldur einnig vegna þess að varnarliðið, sem hefur verið stór atvinnuveitandi, hefur verið að draga saman seglin. Það er staðreynd að þaðan hafa horfið um 200 störf á stuttum tíma og ég vona að það takist að útvega því fólki atvinnu sem þannig missir vinnuna vegna samdráttaraðgerða sem ákveðnar eru allt annars staðar en hér á landi.
    Ég tek heils hugar undir það að það þarf að gera meira. Það þarf að vinna vel að því að uppræta atvinnuleysið en það verður ekki gert með ómarkvissum upphrópunum um eitthvað. Það er með átaki fjöldans í heimabyggðunum með tilstyrk velviljaðrar ríkisstjórnar sem það mun takast.