Atvinnumál á Suðurnesjum

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 11:15:00 (4037)

     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ef hv. þm. hefði látið svo lítið að vera hér í gær þá hefði hann vitað að þessari tillögu var fylgt úr hlaði með því að á hvern hátt best yrði staðið að slíku átaki og ég neyðist til að endurtaka í örstuttu máli að ég tel ekki að það sé ríkisvaldsins að koma með nákvæmar tillögur um hvernig þetta eða hitt svæðið eigi að haga sínum atvinnumálum heldur á í fyrsta lagi að bregðast við þeim skammtímavanda og því skammtímaástandi sem nú er með öllum tiltækum ráðum, t.d. með því að draga úr niðurskurði á opinberri þjónustu. Nú er mjög mikið atvinnuleysi fyrirsjáanlega samfara þeim niðurskurði. Í annan stað að hafa langtímastuðning við frumkvæði heimamanna. Þetta kom fram í ræðu í gær og hefði sparað mér mikið ef hv. þm. hefði getað hlustað á það.
    Ég hef sérstaklega lagt áherslu á það góða starf sem unnið er hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja. Það þarf stuðning til þess að taka þátt í slíku átaki en hér þarf að vera um sérstakt átak að ræða. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum á þann nýja og breytta tón sem kom inn í umræðuna með ræðu hv. þm. Hann dæmir sig sjálfur. Hér hefur verið rætt málefnalega um atvinnumál, ég segi ekki bara um allt land heldur um allan heim að mér liggur vil að segja, en það hefur verið rætt málefnalega um þessi mál og það er vel.
    Varðandi álverið hef ég sagt það áður: Mér varð ekki skemmt þegar ekki varð af því, ekki vegna þess að ég harmaði að jafnslæm leið í atvinnumálum væri ekki farin heldur vegna þess að það hefur verið lamandi hönd á atvinnulífi á Suðurnesjum að þetta álver ætti að koma.