Atvinnumál á Suðurnesjum

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 11:17:00 (4038)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. síðasti ræðumaður, Anna Ólafsdóttir Björnsson, sagði að þetta var nokkuð nýr tónn hér í umræðu hjá hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, ekki bara vegna þess að þetta var ekki mjög málefnaleg ræða heldur líka vegna þess að það er farinn úr talsmanni Alþfl. gorgeirinn sem hefur einkennt málflutning Alþfl. gagnvart atvinnumálum á Suðurnesjum á síðustu árum. Þar hafa þeir komið og þóst vera hinir stóru frelsandi englar og boðuðu mönnum það að ef Alþfl. fengi brautargengi þá yrðu atvinnumálin tryggð á Suðurnesjum. Við vöruðum margir við þessari falskenningu. Því miður tóku of margir mark á henni fyrir um það bil ári síðan.
    Mér fannst nú hins vegar frekar ósmekklegt hjá hv. þm. að vera að draga Gunnar heitinn Thoroddsen inn í þessa umræðu og skildi ekki alveg tilganginn í því. (Gripið fram í.) Ja, ef hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson hefur ekki heyrt það að þm. Karl Steinar Guðnason fór að gera það að sérstöku árásarefni á Alþb. hvar Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra skipaði málum í málefnasamningi sinnar ríkisstjórnar þá hefur hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson misst af þessari ræðu flokksbróður síns. En hv. þm. Karl Steinar Guðnason gerði það að árásarefni á Alþb. að Gunnar heitinn Thoroddsen skipaði þannig efnisþáttum í málefnasamningi sinnar ríkisstjórnar að atvinnumál á Suðurnesjum voru sett undir utanríkismál í þeim texta. Ég sé satt að segja ekki hvað það kemur þessari umræðu við. En ef Alþfl. á virkilega svo bágt um þessar mundir að hann þurfi að seilast svona langt til þess að drepa umræðunni hér á dreif þá verðum við að sýna því ákveðið umburðarlyndi.