Atvinnumál á Suðurnesjum

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 11:20:00 (4039)


     Karl Steinar Guðnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Oft hefur verið talað um ófyrirleitni síðasta ræðumanns en ég verð að segja að sjaldan hefur hann komist eins langt og nú. Ríkisstjórn sú sem ég talaði um var ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Það komu margir að því verki að semja stjórnarsáttmálann. Og ég hef grun um að það hafi einmitt verið þingmaðurinn sem síðast talaði sem réði efnisskipan í þessum efnum og setti atvinnumál á Suðurnesjum undir utanríkismál. Og það hefur verið mjög þekkt, einmitt á Suðurnesjum hver andstaða flokks hans hefur verið við að byggja upp atvinnulíf á Suðurnesjum. Það hefur komið fram í Byggðastofnun, það hefur komið fram í öllum stofnunum sem hafa haft með fjármagn að gera því þeir hafa sagt ásamt öðrum: Þið hafið völlinn. Þótt menn hafi bent á það að það þyrfti að huga að atvinnuuppbyggingu ef breyting yrði þar á þá hafa menn gjarnan sagt þetta aðeins: Þið hafið völlinn.
    Ég endurtek það sem ég sagði áðan. Það eru ýmsar hugmyndir í gangi um uppbyggingu atvinnulífsins. Það eru mjög miklir erfiðleikar til staðar vegna þess að gæftir eru slæmar og breytingar hafa orðið á atvinnuháttum, breytingar hafa líka orðið hjá varnarliðinu. Þetta er erfitt verkefni en það verður leyst, það verður ekki gert með upphrópunum, slagorðum og útúrsnúningi heldur með markvissu starfi fjöldans og þar mun Alþfl. sem fyrr koma að verki.