Atvinnumál á Suðurnesjum

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 11:22:00 (4040)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hún var sérkennileg þessi hylling á Alþfl. í lokaorðum ræðumannsins. Það er langt síðan menn hafa verið að hylla flokka svona eins og gert var í þessum lokaorðum en mér fannst nú för þingmannsins í ræðustólinn ekki bæta um því það eina sem hann hafði fram að færa sem rök fyrir þeim fullyrðingum sem hann færði fram í sinni fyrri ræðu var að hann hefði grun um það að ég hefði orðað texta í málefnasamningi ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens. Þetta voru rökin. Nú er það þannig að Alþfl. kom ekki nálægt myndun ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens. Og sú ríkisstjórn var mynduð á örfáum dögum eins og menn þekkja. Ég sat að vísu einn slíkan viðræðufund tiltölulega snemma í því ferli en að öðru leyti kom ég ekki nálægt viðræðum milli flokka um það og þeir sem þekkja myndun þeirrar ríkisstjórnar vita ósköp vel að Gunnar Thoroddsen annaðist það verk sjálfur að setja saman tillögu um stjórnarsáttmálann, skipa honum í efnisþætti og leggja hann fyrir. (Gripið fram í.) Það er enginn að kenna látnum manni um eitt eða neitt en það má kannski ekki rekja staðreyndir. Það getur vel verið að staðreyndirnar séu óþægilegar fyrir Alþfl., það getur vel verið. Það er auðvitað þannig að staðreyndirnar í álmálinu eru óþægilegar fyrir Alþfl. Staðreyndirnar í atvinnumálum á Suðurnesjum eru óþægilegar fyrir Alþfl. Það er auðvitað óþægilegt fyrir Alþfl. að þeir tveir ráðherrar sem hafa viljað ráða mestu um atvinnumál á Suðurnesjum síðustu tæp fjögur árin eru ráðherrar Alþfl., iðnrh. og utanrrh., og sá sem hefur verið í forustu fyrir launafólkið á Suðurnesjum er þingmaður Alþfl. þannig að ef það er einhver einn flokkur sem hefur haft völd og aðstöðu til þess að gera eitthvað í atvinnumálum á Suðurnesjum á síðustu árum, þá er það Alþfl. Og þess vegna er það ósköp eðlilegt að þingmenn hans grípi til þeirra bragða sem hv. þm. gerði hér í sinni fyrri ræðu og þegar þau eru hrakin sem ósannindi og útúrsnúningur þá verður þingmaðurinn að þola að heyra staðreyndir málsins.