Atvinnumál á Suðurnesjum

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 11:35:00 (4045)



     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við sem erum í þeim fámenna áhugaklúbbi um pólitíska framtíð Össurar Skarphéðinssonar tókum auðvitað eftir því að hann skrifaði grein í Pressuna í síðustu viku og við veltum því fyrir okkur hvort sú grein væri tilviljun vegna þess að það hefði skort eitthvað krassandi efni fyrir stílæfinguna þann mánuðinn sem þingmaðurinn skrifar í Pressuna. En andsvarið sem hann flutti áðan og reyndar ræðan þar á undan gáfu greinilega til kynna að þetta væri lína, að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi tekið að sér alveg sérstaka vörn fyrir Davíð Oddsson, hæstv. forsrh. og gengst greinlega upp í því. Ég veit að þingmaðurinn skilur þetta alveg fullkomlega vegna þess að það er samhengið á milli greinarinnar í Pressunni og þeirra tveggja ræðna sem hann hefur flutt að skjóta skildi fyrir forsrh. og verja hann sérstaklega í samskiptum mínum við forsrh. hér á þingi. Þetta er auðvitað allt saman mjög fróðlegt, þessi mikli lofsöngur um Margréti Thatcher hér í umræðunni og þessi sérstaka vörn fyrir forsrh. Davíð Oddsson. Kannski er hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson orðinn sá eini sem er í hinum svokallaða vinstra armi þingflokks Alþfl.