Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 11:53:00 (4047)

     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Ég vil taka undir tillögu um að ljúka framkvæmdum við hringveginn. Þar er einkum átt við stærsta verkefnið, tenginguna milli Norður- og Austurlands, um Möðrudalsöræfi og Hólsfjöll. Ég tek einnig undir það að æskilegt væri að tillagan fengi skjótan framgang á Alþingi og ég er sannfærður um að hún nýtur víðtæks stuðnings. Það byggi ég á því að í starfsáæltun ríkisstjórnarinnar um samgöngumál sem kemur fram í hinni svokölluðu hvítu bók er þetta eina einstaka vegaframkvæmdin sem minnst er á. Ríkisstjórnin hefur sett sér að framkvæma þetta verk og vona ég svo sannarlega að tillagan fái greiðan framgang á Alþingi því að hún fellur mjög vel að þeim áformum.
    Það atvinnuástand hefur skapast í landinu, ekki síst í verktakaframkvæmdum, að stór og stórvirk atvinnutæki eru ónotuð. Það ætti því að vera tiltölulega hagkvæmt að ráðast í framkvæmdir um þessar mundir.
    Þegar vegaframkvæmdir ber á góma er rætt um það í vaxandi mæli hvaða áhrif þær hafi önnur en þau að þægilegra er að keyra nýja og uppbyggða vegi og að þeir eru oftar færir en gömlu vegirnir. Vegaframkvæmdir hafa einnig víðtæk áhrif í atvinnumálum. Í þessu sambandi má benda á að núna er lausnin talin felast í samvinnu og sameiningu fyrirtækja og sveitarfélaga á stærri landsvæðum, að hún veiti mikla hagkvæmni og sé eitt af því sem við eigum að stefna að í sókn okkar til bættra lífskjara. Ég geri ekki lítið úr þessu og tel að það verði að hugsa í stærri heildum en áður var gert og að breyttar samgöngur hafi mjög víðtæk áhrif.
    Tillagan gerir einmitt ráð fyrir því að við athugun á þjóðhagslegri hagkvæmni framkvæmdarinnar sé athugað hvaða sóknarfæri skapast í atvinnulífinu við þessa framkvæmd. Ég tek undir það að nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir því.
    Framkvæmdinni er ekki lokið vegna þess að aðrar framkvæmdir við tengingu byggða hafa gengið fyrir þessari. Það dregur þó ekki úr því hvað áríðandi er að vinna að þessu verkefni. Þess vegna er ég eindreginn stuðningsmaður tillögunnar.
    Vegarstæði úr Mývatnssveit og austur á Hérað hefur ekki endanlega verið ákveðið. Töluvert miklar athuganir og skýrsla liggja fyrir um möguleg vegarstæði. Þar koma ýmsar leiðir til greina. Það kemur til greina að fara beint frá Grímsstöðum og austur um Þjóðfell, svo að ég nefni þar kennileiti. Sú leið liggur nokkuð norðarlega og er örugglega nokkuð snjóþung miðað við þá leið sem nú er farin. Að öðru leyti kemur til greina að fara þá leið sem nú er. Það er rétt sem kom fram í ræðu framsögumanns að þessi leið er ekki ýkja snjóþung miðað við það sem gerist á fjallvegum nær ströndinni. Hins vegar geta verið vond veður þarna og langt er á milli bæja. Eigi að síður á að vera mjög viðráðanlegt að halda henni opinni í venjulegu árferði miklu lengur en nú er gert og náttúrlega væri nærtækt að byrja á því. Ég tel heppilegt að leiðin liggi einhvers staðar nálægt því sem hún liggur nú. Það kæmi til greina að fara svokallaðan Langadal og austur í Jökuldalsheiði en gallinn er sá að Möðrudalur fer úr alfaraleið og þá lengist á milli byggðra bóla. En auðvitað er nauðsynlegt að eitthvert athvarf sé á leiðinni eins og hefur verið til þessa.
    Akstursleiðin milli Egilsstaða og Akureyrar er um 280 km. Á góðum vegi er þetta um þriggja tíma akstur sem er ekki mikið á þeim bifreiðum sem við höfum nú orðið yfir að ráða. Auðvitað mundi þessi framkvæmd því auka mjög og greiða fyrir samskiptum milli Norður- og Austurlands. Hún hefði einnig mikla þýðingu fyrir vaxandi ferðamannaþjónustu á þessu svæði svo ég tali nú ekki um aðra flutninga sem mundu þá koma mjög til greina, t.d. í sambandi við sjávarútveginn eins og hv. frsm. kom inn á í ræðu sinni.
    Ég ætla ekki að halda lengri ræðu um þetta mál að sinni. Ég er fylgjandi því að athugun fari fram. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar fellur sú athugun mjög vel að áformum ríkisstjórnarinnar því hún hefur sett sér að flýta þessu verkefni. Tillagan ætti því að hafa greiða leið í gegnum þingið og njóta víðtæks stuðnings á Alþingi.