Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 12:02:00 (4048)

     Hrafnkell A. Jónsson :
    Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa yfir stuðningi mínum við þá till. sem er til umræðu.
    Tenging hringvegarins eða lokauppbygging hans á milli Austurlands og Norðurlands er forgangsmál fyrir Austfirðinga auk uppbyggingar Egilsstaðaflugvallar. Það er sannfæring mín að lokauppbygging þessa vegarkafla, svo og hringvegarins suður frá Egilsstöðum, verði undirstaða atvinnuþróunar á Austurlandi í náinni framtíð.
    Hv. síðasti ræðumaður fór nokkrum orðum m.a. um vegarstæði á þessari leið og víst er um að þar er ýmislegt ókannað. Þegar vegarstæði á milli Norður- og Austurlands yfir Mývatnsöræfi og Möðrudalsfjallgarða verður endanlega ákveðið tel ég nauðsynlegt að kannað verði til hlítar hvort með vegarlagningunni verði með einhverjum hætti hægt að minnka eða rjúfa einangrun Vopnafjarðar, þó hún verði nú kannski aldrei rofin. En möguleikar eru fyrir hendi á að stytta verulega þá leið sem er t.d. á milli Vopnafjarðar og annarra svæða sunnar á Austfjörðum. Þetta atriði hlýtur að koma til athugunar þegar verkið verður unnið. Ég hygg nú samt að Austfirðingar muni ekki deila um þessa hluti ef líkur eru á að framkvæmdir byrji.
    Þetta er ekki eini kafli hringvegarins sem er ófrágenginn. Hluta hringvegarins á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar er ólokið. Á Austfjörðum er annar kafli er ófrágenginn og hlýtur að koma til athugunar í tengslum við þessa könnun, þ.e. óákveðið er hvaða leið verður farin suður frá Egilsstöðum, hvort þjóðvegi 1 verði fylgt um Breiðdalsheiði, hvort hringvegurinn verður byggður upp með ströndinni frá Reyðarfirði til Breiðdals eða eins og varpað hefur verið fram í umræðunni núna á undanförnum vikum að kanna vegarlagningu yfir Öxi.
    Ég hef ásamt hv. þm. Jóni Kristjánssyni flutt tillögu sem kemur vonandi til umræðu síðar í vetur um könnun á gerð jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Ég lít svo á að það hljóti að vera hlutur sem kanna verður í þessu samhengi, ekki síst vegna þess að það getur þjónað fleiri markmiðum en nákvæmlega þeim að ljúka gerð hringvegarins. Að mínum dómi gæti það orðið veigamikill þáttur í þeirri byggðaþróun sem líkleg er á næstunni og byggir mikið á því að stytta vegalengdir á milli þéttbýlisstaða og skapa þannig stærri verslunar- og þjónustusvæði, nýjar forsendur í atvinnuuppbyggingu eins og hv. frsm. kom vel að. Möguleikar hinna dreifðu byggða, ekki síst við sjávarsíðuna, munu í framtíðinni byggjast á því hversu auðveldlega við komum afla, sem kemur á land, á markað og hversu vel við liggjum við stærri markaðssvæðum. Ég er að vísu ekki alls kostar trúaður á að hagkvæmni stærðarinnar sé upphaf og endir allra hluta eins og virðist vera í umræðunni í dag varðandi atvinnumál, þar sem leysa á öll vandamál með stækkun fyrirtækja, vandamál sveitarfélaga með sameiningu sveitarfélaga og svo má lengi telja. Ég vil heldur ekki hafna þeim kostum sem þessir möguleikar geta boðið upp á. Þess vegna lít ég svo á að við uppbyggingu samgöngumannvirkja á næstu árum hljóti að verða að kanna arðsemina m.a. út frá því hvaða möguleikar geta skapast í byggðarþróun, í uppbyggingu atvinnulífs og í ódýrari þjónustu opinberra aðila.
    Ég ítreka stuðning minn við tillöguna og vænti þess að hún nái fram að ganga þannig að á næstu vikum og mánuðum verði hægt að hefja þá könnun sem lögð er til og að hún geti komið sem fyrst til hagsbóta öllum landsmönnum, ekki eingöngu íbúum Norður- og Austurlands.