Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 12:18:00 (4050)


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fjalla hér um landgrunnsmálið þó að það væri vissulega freistandi því að skoðanir mínar og hv. síðasta ræðumanns fara merkilega vel saman í því máli. Hins vegar er freistandi að ræða örlítið um það sem hv. síðasti ræðumaður kom inn á hver afdrif ályktana Alþingis eru yfirleitt og hvernig vilji Alþingis er virtur. Það hefur nefnilega berlega komið í ljós á síðustu árum að hann er oft og tíðum hundsaður og þarf varla að nefna mörg dæmi því til stuðnings. En það er freistandi að nefna nokkur.
    Ég get nefnt mjög nýlegt dæmi sem er hið svokallaða þyrlumál þar sem vilji Alþingis kom ítrekað fram, bæði í formi samþykktar á þál. sjálfri og einnig með samþykkt lánsfjárlaga. En sá vilji var ekki virtur. Ég get nefnt annað dæmi sem er þál. sem ég ásamt fleirum fékk samþykkta fyrir einum 3--4 árum sem var um neyðarsíma sem átti að setja upp á hættulegum fjallvegum. Þeirri framkvæmd hefur ekki enn verið hrundið í gang þrátt fyrir að tilefni hafi vissulega gefist til og mannslífum hafi meira að segja verið fórnað.
    Á síðsta þingi var einnig samþykkt þál. um uppsetningu vegriða. Áætlun um það átti að leggja fyrir 1. okt. 1991 en ekkert bólar á henni.
    Þannig væri lengi hægt að telja og vissulega er áhyggjuefni fyrir okkur sem hér störfum og leggjum vinnu í að búa til þáltill. og berjast fyrir þeim bæði í þingsal og eins í nefndum að þegar þeirri baráttu er loksins lokið og við teljum okkur hafa náð árangri, þá fara þau til ríkisstjórnar og þar fara þau beint í salthauginn. Þarna verða menn að taka til hendi og lemja hnefanum í borðið.
    Mér þykir athyglisvert þegar tillaga eins og þessi er borin fram, þá situr að ég hygg aðeins einn fulltrúi samgn. í salnum, hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, og er það virðingarvert af hennar hálfu. En ég hefði mjög gjarnan viljað sjá fleiri fulltrúa þeirrar nefndar þegar svo stórt mál sem þetta er til umræðu.
    Ég vil þakka flutningsmönnum þessarar tillögu fyrir framlagningu hennar. Ég tel þetta þarft mál og kem fyrst og fremst upp til þess að taka undir tillöguna, tel sjálfsagt að þessar kannanir sem farið er

fram á verði gerðar og stóri draumurinn fái vonandi sem fyrst að rætast þannig að hringveginum verði lokið. Ekki er hægt að segja að neinn frekjutónn ríki í tillögunni. Það er spurningin um að kanna og leggja mat á hluti og ég sé því ekkert til fyrirstöðu að ríkisstjórnin láti slíkt starf fara fram.
    Ég tek undir að málið verður að fá snögga afgreiðslu ef þetta á að geta orðið að veruleika að framkvæmdir eins og þessi till. gerir ráð fyrir eiga að geta farið fram á þessu ári. Því er mjög brýnt að nefndin vinni hratt að málinu og tefji það ekki frekar en nauðsynlegt er.
    Auðvitað tek ég undir það í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu að þá þurfum við að leita allra ráða til þess að finna og skapa atvinnutækifæri. Vissulega mundi þetta gera það og ekki veitir af. Þetta mundi jafnframt glæða atvinnulífið í landinu í verslun, í þjónustu, í iðnaði, í sjávarútvegi að ógleymdum ferðamannaiðnaðinum þannig að hér er vissulega um þarft mál að ræða.
    Mér finnst freistandi að óska eftir því að hv. samgn. láti kanna það jafnframt þegar hún fer yfir málið að möguleikinn á notkun steypu verði kannaður til hlítar. Allt of lítið er gert af því í landinu að nota steypu til vegagerðar og ég tel að nefndin eigi að láta kanna hagkvæmni þess að nota steypu með tilliti til endingar, til þols og að sjálfsögðu með fjárhagslega hagsmuni í huga. Í mínum huga er enginn vafi að steypan er það sem koma skal þannig að ég óska eftir því og ég bið þann eina fulltrúa samgn. sem hér situr að bera þessi skilaboð til nefndarinnar.
    Þá finnst mér líka freistandi að minna á að þjóðvegur 1, hringvegurinn, er ekki alls staðar aðalbraut. Ég hef reyndar líka flutt tillögu um að hann verði gerður að aðalbraut og fengið þau svör frá sitjandi ráðherrum og Vegagerð að það þyki of dýrt. Ég get ekki tekið undir þau rök, m.a. vegna þess að menn álíta yfir höfuð að þjóðvegur 1 sé aðalbraut og beinlínis þess vegna hafa orðið fjölmörg slys sem ég tel að hægt sé á ódýran hátt að koma í veg fyrir. Ekki þarf að nefna mörg dæmi. Ég get nefnt eitt dæmi sem er þó búið að laga núna, sem betur fer. Á vesturleið koma menn að veg sem liggur að Leirársveitarskóla, Leirársveit, og hann hafði rétt á þjóðveg 1. Menn gerðu sér ekki grein fyrir þessu enda hafa þarna orðið fjölmörg slys. Og svona væri vafalaust hægt að tína upp marga vegarkafla.
    Hæstv. forseti. Ég kom fyrst og fremst upp til þess að taka undir tillöguna og ég vona að hv. samgn. taki rösklega á málinu og afgreiði það sem allra fyrst.