Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 12:26:00 (4051)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég held að gjarnan megi skipta umfjöllun þessarar tillögu í tvennt. Annars vegar spurninguna um það hvort álitlegt og rétt sé að auka vegaframkvæmdir og grípa jafnvel til sérstakrar fjáröflunar eða lántöku í því skyni og hins vegar til hvaða framkvæmda í vegakerfinu skynsamlegt væri að líta ef menn taka ákvörðun um að auka vegaframkvæmdir að marki umfram það sem áætlanir gera ráð fyrir.
    Ég tek það fram strax að ég er og hef lengi verið sammála hinu fyrra. Ég held að það sé tvímælalaust einn allra álitlegasti kostur okkar Íslendinga, þjóðhagslega séð, að leggja fé í uppbyggingu samgöngukerfisins í landinu. Reyndar er það svo að flestar kannanir og útreikninga ber að sama brunni í þeim efnum þ.e. að fáar ef nokkrar framkvæmdir búa yfir jafnmikilli innri arðsemi eins og einmitt samgöngubætur í nútímaþjóðfélögum. Gjarnan er fullyrt að um 10% af innri arðsemi sé fólgin í því að byggja upp nútímasamgöngur á landi í stað lélegri sem fyrir eru eða engra. Ég er því fylgjandi og hef lengi verið, svo ég tali nú ekki um ósköpin við núverandi aðstæður í atvinnu- og efnahagsmálum í landinu, að menn skoði alveg ofan í kjölinn hvort ekki sé með einhverjum hætti hægt að auka framvæmdir og gera meira þar en áformað er. Það er að vísu svolítið öfugsnúið að ræða um tillögu af þessu tagi nokkrum dögum eftir að niðurskurðarþingsályktunartillaga að vegáætlun hefur verið til umfjöllunar og flutt af hæstv. samgrh. Vissulega er svolítið mótsagnakennt að dagskráin skuli raðast þannig upp í þinginu. Að mínu mati breytir það engu um að auðvitað er sjálfsagt mál að taka vel á móti og skoða hugmyndir um að grípa til sérstakra ráðstafana og fjáröflunar til vegaframkvæmda.
    Varðandi það atriði að beina þeim framkvæmdum að því að byggja upp hringveginn skil ég það svo að menn séu í grófum dráttum að tala um þjóðveg 1. Nú má deila um það, það er skilgreiningaratriði, hvort líta beri alls staðar svo á að þjóðvegur 1 sé hringvegurinn. Ég nefni sem dæmi vegakerfið á Austurlandi þar sem þjóðvegur 1 liggur um Breiðdalsheiði en aðalumferðaræðin liggur veginn með fjörðum. Yfir vetrartímann má því a.m.k. segja að hringvegurinn liggi með ströndinni. Nokkur fleiri dæmi af því tagi má nefna um hringveginn.
    Eftir því sem uppbyggingu hringvegarins eða þjóðvegar 1 miðar áfram fara menn að skoða þá spotta sem eftir eru. Ég held að ég muni það rétt að í umræðum um langtímaáætlun á þingi fyrir nokkru nefndi ég þann möguleika og álit mitt að innan tveggja til fimm ára hlytu menn að taka þá búta sem eftir væru á hringveginum, segjum þá eins til þriggja ára núna, og skoða það sem sjálfstætt verkefni að ljúka hringveginum. Það er rétt að í þeirri áætlunargerð sem unnið er eftir í vegamálum er hringvegurinn sem ein heildstæð eining óháð kjördæmum og ekki sérstaklega undir þegar skipting vegafjár er ákvörðuð. Þess hefur vissulega gætt í nokkrum mæli að eyður séu á hringveginum á mörkun kjördæma vegna þess að skipting vegafjárins innan hinna einstöku kjördæma hefur meira miðað að því að búa þar til tengingu innan héraðs eða innan fjórðungs. Í því sambandi er sú hugsun, sem liggur að baki þessarar tillögu, skynsamleg að í áætlanagerð verði litið til hringvegarins sérstaklega. Ég vil þó láta það sjónarmið mitt koma hér fram og ég vona að það misskiljist ekki og hvorki tillögumenn né aðrir taki það sem andstöðu við tillöguna að ég

held að menn þurfi að fara mjög vandlega í gegnum það áður en þeir taka ákvarðanir um að ráðstafa auknu fjármagni til vegaframkvæmda öðruvísi en sem hluta af hinum almennu vegaframkvæmdum á grundvelli vegáætlunar og langtímaáætlunar sem fyrir liggur. Það er af þeim ósköp einföldu ástæðum að þar hefur mikilvæg áætlanagerð farið fram. Þar hafa margir lagt hönd á plóginn og ekki síst þingmenn kjördæmanna og orðið ásáttir um tiltekna forgangsröðun framkvæmda. Óhjákvæmilega mundu vakna spurningar ef við hefðum 2--3 milljarða til ráðstöfunar aukalega, til viðbótar því vegafé sem er eða horfir til samkvæmt vegáætlun. Ef ákveðið yrði að ráðstafa því öllu í það verkefni að ljúka hringveginum þá mundu örugglega vakna spurningar varðandi einstakar tengingar, hvort þær mættu bíða, t.d. tengingar milli héraða eða þéttbýlissvæða innan héraðs eða milli fjórðunga sem ekki þurfa endilega að liggja á hringveginum. Þetta held ég að liggi í hlutarins eðli og er ekki sagt hér til að varpa neinni rýrð á tillöguna eða þá hugsun sem að baki hennar býr. Þetta er ósköp einfaldlega hinn praktíski veruleiki sem mun blasa við mönnum jafnan þegar þeir fara að skoða þessi mál og ræða forgangsröðun verkefna.
    Mikið hefur verið rætt um tenginguna milli Norðurlands og Austurlands og lögð mikil áhersla á að það sé brýnt að bæta þar úr. Það er allt rétt sem sagt er um það en það er hins vegar mjög stórt verkefni. Ég hef stundum spurt þingmenn Austfjarðakjördæmis að því hvort þeir telji líklegt að enn um sinn, meðan jafnmikilvæg verkefni eru óunnin varðandi tengingu byggðarlaganna innbyrðis á Austfjörðum, bara af hefðbundinni vegagerð og lagningu bundins slitlags á því svæði, séu menn líklegir til að fallast á að draga úr framkvæmdum á allra næstu árum á Austurlandi. Ég tala ekki um stöðva slíkar framkvæmdir innan fjórðungsins en setja hundruð milljóna kr. í uppbyggingu þess hluta tengingarinnar milli Norðurlands og Austurlands sem kæmi í Austfjarðakjördæmi og er auðvitað stærsti hlutinn. Ég held að það mundi vefjast dálítið fyrir mönnum í því kjördæmi. Það er mín spá og þetta segi ég óskað einfaldlega til að minna menn á þann veruleika sem mun blasa við þeim. Ég er ekki með þessu að draga úr mikilvægi þess að reynt verði að ráðast í þetta verkefni og að sjálfsögðu verður það gert. Hér er eingöngu spurningin um tíma eða forgangsröðun verkefna. Ég fagna því að tillagan er fram komin og vona að hún komist til samgn. og verði tekin inn í þá vinnu sem er þar vegna þess að vegáætlun liggur fyrir þinginu. Ég lýsi almennt mjög jákvæðum sjónarmiðum gagnvart meginefni tillögunnar, að afla aukins fjár til vegagerðar. Ég tel sjálfsagt mál að skoða hringveginn sértaklega í því sambandi, þar með talda tengingu Norðurlands og Austurlands. Hins vegar held ég að þetta verk verði að vinna í samhengi við og sem hluti af vegamálunum í almennu samhengi, þ.e. hvar og hvenær peningum skuli varið á hverjum tíma.