Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 12:39:00 (4054)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir það að þessi tillaga skuli komin fram og ég þakka þeim flm. sem þar eiga hlut að máli. Ég tel að það sé mjög tímabært og reyndar alltaf tímabært að ræða um það að bæta samgöngur og leggja í þær arðbæru framkvæmdir sem ég tel að vegaframkvæmdir eða bætur á vegakerfinu séu. Það hefur alltaf verið talið hagkvæmt. Vegagerðin telur það hagkvæmt í dag og hefur gert í mörg ár. Miðað við það atvinnuástand sem er í dag, getum við ekki neitað því að það væri atvinnuskapandi, bæði fyrir almenna launamenn og fyrir verktakastarfsemi í landinu.
    Sú ákvörðun var tekin á sínum tíma, þegar hringveginum var lokið, eins og hér hefur komið fram fyrr í dag, að þá voru boðin út skuldabréf á almennum markaði. Það var einnig gert þegar vegurinn var tengdur um Ísafjarðardjúp, þá voru einnig boðin út skuldabréf og þá sérstaklega innan þess landshluta til þess að ljúka veginum um Ísafjarðardjúp og tengja þar með Ísafjörð um Ísafjarðardjúp við aðra landshluta. Af því að ég er nú farin að ræða um Ísafjarðardjúp og Vestfirði, þá langar mig til að benda hv. alþm. á það að þegar menn ræða um hringveginn um landið, þá er yfirleitt alltaf einn landshluti undan skilinn. Það er talað um hringveg milli Norðurlands, Suðurlands og Austurlands en hringvegurinn um Vestfirði er ekki inni í dæminu. Það er nokkur hugsanavilla þar sem náttúran tók þá ákvörðun að Vestfirðir skyldu ekki vera eyja við landið heldur fasttengdir að þá skuli stjórnvöld hafa tekið þá ákvörðun að hringvegurinn um landið nái ekki til Vestfjarða. Ég held að það hafi valdið því að seinkun hefur orðið á ýmsum vegaframkvæmdum á Vestfjörðum sem hefðu átt að vera komnar fyrir löngu þótt ég sé á engan hátt að vanþakka þær framkvæmdir sem þar eru í gangi í dag.
    Fyrir nokkrum vikum var rætt mikið um breikkun Reykjanesbrautar til þess að koma til móts við þá verktakastarfsemi í landinu sem horfir fram á atvinnuleysi á næstu mánuðum. Hæstv. ríkisstjórn tók þá ákvörðun að stuðla ekki að því að það verði gert núna. Það er spurning hvort hún tekur jákvæðar í það að ljúka þessum hringvegi með betri tengingu. Að vísu hefur hæstv. samgrh. lýst yfir áhuga sínum á því að bæta tengingu milli Norðurlands og Austurlands en ekkert ákveðið hefur þó enn komið fram um það.
    Ég hef gagnrýnt áður niðurskurð í breyttri vegáætlun sem nýlega kom fram sem getur verið á bilinu 750--1.000 millj. kr. Það er því ansi hætt við því að ekki verði nægilega vel tekið í þetta átak sem hér er verið að ræða um í samgöngumálum, að ljúka framkvæmdum við hringveginn. Það væri, eins og ég sagði áðan, vissulega þess virði bæði vegna atvinnuástands og annarra atriða. Ég vil taka það sérstaklega fram að þegar við ræðum um samgöngumál, um betri vegi og betri samgöngur á landinu og um byggðastefnu, þá eru það fyrst og fremst samgöngumálin sem skipta máli. Þau eru númer eitt, tvö og þrjú í jákvæðri byggðastefnu. Það er jákvætt að bæta samgöngur vegna þess að þær koma inn á svo marga aðra þætti í opinberri þjónustu, atvinnulífi og félagslífi landsmanna. Allt sem gert er í því skyni að bæta samgöngur og tengja þannig landshlutana betur saman er jákvæð byggðastefna. Ég vil því hvetja til þess, ef nokkur möguleiki er, að hæstv. ríkisstjórn skoði þetta mál í fullri alvöru, miðað við það ástand sem ríkir í þjóðfélaginu, og verði svo stórhuga að hún stuðli að því að þessi tillaga nái fram að ganga.