Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 12:44:00 (4055)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu nokkuð athyglisverð till. til þál. um átak í vegamálum, að vísu á afmörkuðu sviði. Það kemur fram að að baki tillögunnar liggur ákveðið sjónarmið sem ég vil taka undir. Það er, eins og fram kemur í greinargerð, að afkastamikið samgöngukerfi, eins og kallað er, er talið vera ein meginforsenda öflugs atvinnulífs og að góðar samgöngur séu forsenda þess að unnt sé að nýta um land allt þau tækifæri sem liggja í atvinnugreinum eins og sjávarútvegi.
    Enn fremur vil ég taka undir það sjónarmið sem fram kemur í greinargerð að réttlætanlegt sé við ákveðin skilyrði að skilgreina verkefni sem sérverkefni og fjármagna þau sérstaklega, jafnvel með lántöku af einhverju tagi.
    Ég vildi bæta við umræðu um þetta verkefni, sem hér er gerð tillaga um að verði tekið sérstaklega út úr, að það verður í sjálfu sér að líta á þau sérverkefni sem menn ákveða að ráðast í út frá samgöngumálum almennt og þeirri stefnu sem er á hverjum tíma svo um sé að ræða eitthvert samhengi þar á milli. Ég tel að við eigum að nýta okkur þá möguleika og þá getu sem við höfum til að taka lánsfé til þess að fjármagna afmörkuð verkefni og bæta samgöngur þar sem þær eru slæmar og ráðast í stórvirki þar sem þess er þörf, t.d. jarðgangagerð. Ég hef nokkrar efasemdir um að hringvegurinn sé það verkefni sem er brýnast og við ættum að beina kröftum okkar að. Það eru e.t.v. á hringveginum vegarkaflar sem ekki eru nægilega góðir og nauðsynlegt að bæta úr á þeim köflum. En mér finnst það brýnna verkefni að halda áfram þeirri stefnu, sem menn hafa haft, að tengja saman byggðir innbyrðis innan svæða og í öðru lagi að tengja saman landsvæði. Verulega mikið vantar á nægilega hafi skilað fram á veginn í þeim efnum. Ég bendi á að svonefndur hringvegur sniðgengur nánast alveg það kjördæmi þar sem vegalengdir eru hvað mestar, Vestfjarðakjördæmi. Hann sniðgengur líka annað landsvæði þar sem vegasamgöngur eru nokkuð misjafnar og vegakerfið misjafnt. Þar á ég við Snæfellsnes. Ég hygg að það væri mikilvægara að leggja fé, sem menn geta aflað í þessu skyni, til úrbóta á svæðum eins og Vestfjörðum og Austfjörðum. Ég held að það

sé ein helsta viðspyrna í þeirri byggðaöfugþróun sem átt hefur sér stað um nokkurt skeið.
    Að öðru leyti vil ég ítreka að ég er sammála því viðhorfi sem liggur að baki tillögunni þótt ég sé ekki fyllilega sammála þeirri áherslu að þetta verkefni sé það sem beri að taka út úr. Ég get enn fremur látið það koma fram að ég tel það t.d. ekki mjög skynsamlegt að menn taki lán til að bora göng undir Hvalfjörð því sú lánsfjáröflun rýrir vissulega getu okkar til þess að taka lánsfé í önnur verkefni. Menn geta svo sem haft misjafnar skoðanir á því hvað sé brýnast í einstökum verkefnum.
    En ég vil, virðulegi forseti, taka undir það að ég vonast til þess að tillagan komist til nefndar og fái þar umfjöllun og afgreiðslu. Gott væri ef hún liti þannig út, þegar hún kemur úr nefnd, að þar væri mætt nokkuð þeim sjónarmiðum sem ég hef talað fyrir.