Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 12:51:00 (4056)


     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Það virðist vera orðið hlutskipti mitt á þessum fallega degi að taka undir með framsóknarmönnum.
    Það er auðvitað svo að um efni þeirrar tillögu sem hér er lögð fram er farið nokkrum orðum í hinni merku hvítbók sem ég veit að flutningsmenn hafa lesið út og inn. Þar er sérstaklega tekið fram að hraða eigi lagningu bundins slitlags á hringveginn og vinna að tengingu milli landshluta. Ég verð að segja að ég fagna því að Framsfl. skuli með þessum hætti leggjast á sveif með okkur en auðvitað er hér um að ræða mál sem allir geta tekið undir. Þessi tillaga gengur fyrst og fremst út á það að láta kanna möguleikana á því að ljúka uppbyggingu hringvegarins, jafnframt að könnuð verði þjóðhagsleg arðsemi þess og athugað verði samhliða hvaða ný sóknarfæri skapist. Ég segi það fyrir hönd Alþfl. að við erum því hlynnt að þessi könnun fari fram. Ég tel að miðað við þær aðstæður sem nú hafa skapast í íslensku þjóðlífi sé sérstaklega brýnt að athuga arðsemi framkvæmda sem þessara. Það er alveg ljóst, m.a. vegna þess að okkur tókst ekki að lenda hér álveri sem gerir það að verkum að við blasa verulegir erfiðleikar í verktakastarfsemi í landinu. Einmitt þess vegna eru framkvæmdir af þessu tagi e.t.v. áhugaverðari en áður. Ég vil samt sem áður ekki draga úr mikilvægi þess að hringveginum verði lokið.
    Ég tek undir margvíslegar röksemdir sem koma fram í greinargerðinni og þá sérstaklega þær að með tilliti til breytinga sem væntanlega munu verða á næstunni í sjávarútvegi er þetta enn brýnna en áður. Það er alveg ljóst að þegar sjávarútvegurinn mun á næstunni breytast þannig að flutningur á ferskum afurðum til útlanda verður miklu mikilvægari en áður er þetta brýnna en fyrr. Þess vegna segi ég það fyrir hönd Alþfl. að við teljum að sú könnun, sem hér er lagt til að verði gerð, sé afar jákvæð og lýsi þess vegna ánægju minni með hugmyndina. Ég vænti þess að hv. þm. Jóhannes Geir muni í þessum efnum sem öðrum taka undir það sem stendur í hinni hvítu bók ríkisstjórnarinnar.