Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 13:04:00 (4061)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er eitt að lýsa góðum vilja með fallegum orðum. Annað er að standa við orðin með verkum og með því að láta verkin tala. Ég vakti athygli á þessu hér vegna þess að svo lengi hefur fólki verið boðið upp á umræður um þessi mál án þess að við orðin stóru hafi verið staðið. Hér er um spurningu um almenna forgangsröð verkefna að ræða. Ég var að benda á að þegar kemur að því að ákveða þessa forgangsröð hefði t.d. Framsfl. tekið þetta verkefni, milljarða króna verkefni, í flugstöðina á Keflavíkurflugvelli fram yfir þau verkefni sem við hefðum vænst af Framsfl. í sambandi við vegamál úti á landsbyggðinni ef við hefðum tekið mark á þeim orðum sem Framsfl. hefur haft uppi fyrir kosningar hverju sinni. Ég var að vekja athygli á þessu þannig að við hefðum þá sögu í huga þegar við ræðum um vegamál. Við getum þá horft til þess tíma að verkin munu opinbera þennan vilja og verða að veruleika. Þetta vil ég benda á og þess vegna vakti ég athygli á þessari sögu enda er það rétt og ég skil þessa tillögu svo frá hv. þm. Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni að nú treysti hann ríkisstjórninni til að gera betur en sínum eigin flokki í 20 ár í ríkisstjórn.