Hringvegurinn

96. fundur
Föstudaginn 06. mars 1992, kl. 13:18:00 (4066)


     Hrafnkell A. Jónsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil aðeins að það komi fram í tilefni af ummælum hv. þm. Kristins Gunnarssonar að því fer víðs fjarri að ég skammist mín fyrir minn pólitíska feril. Ég lít þvert á móti þannig á að hann sé merki um það að ég sé á þroskabraut sem er reyndar ekki hægt að segja um alla hv. þm. sem ættu að vera komnir til þess aldurs að þeir hefðu séð að stefnan sem á sínum tíma var mörkuð af þeim sálugu félögum Lenin og Marx er gengin sér til húðar. En hins vegar hlýt ég að rifja það upp fyrir hv. þm. að tala gætilega um það að fara á milli flokka. Hann gæti hugsanlega stigið ofan á tærnar á einhverjum sem honum standa nær í hans eigin flokki.
    Það er einu sinni þannig að það er til bóta í okkar íslenska þjóðfélagi að einstaklingar eru ekki bundnir á klafa einhverra einstakra skoðana frá vöggu til grafar. Þetta er okkar stóra lán og fyrir það eigum við að kunna að þakka.
    Svo aðeins, af því að hv. þm. vék að myndarlegum framkvæmdum sem m.a. Sjálfstfl. hefur staðið að hér í Reykjavík, þá er það nú einu sinni þannig að ég hef ekki litið svo á að það væri nema að takmörkuðu leyti verkefni hv. þm. að vera að skipta sér af framkvæmdum sveitarfélaga eins og t.d. Reykjavíkurborgar. Ég hygg að það hafi verið tekin um það ákvörðun með lögmætum hætti í borgarstjórn Reykjavíkur að framkvæma það sem borgarbúum og landsmönnum öllum er til ánægju uppi á Öskjuhlíðinni og á eftir að halda hróðri okkar á lofti um langa framtíð, miklu lengur heldur en Alþb. verður munað.