Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Segja má að stjórnmál á Íslandi snúist æði oft um málefni sem snerta skammtímasjónarmið og lausn á aðsteðjandi vanda. Við erum mjög upptekin af því hér í þessari samkundu að skilgreina vanda sem steðjar að okkur hér og nú og fáum því miður allt of sjaldan tækifæri til þess að líta til framtíðarinnar og leggja grundvöll að velmegun Íslendinga í framtíðinni, leggja grundvöll að bættri samkeppnishæfni íslenskra atvinnuvega. Það mál sem hér er lagt fram er þess efnis og eðlis að það er líklegt til þess, ef það fer í réttan farveg, að leggja í framtíðinni grundvöll að bættri samkeppnisstöðu Íslendinga og efla þannig hagvöxt hér á landi þegar til lengri tíma er litið. Ég er efnislega mjög sammála þessari tillögu Fyrsti flm. tillögunnar skýrði mjög greinilega frá því hvernig á því stendur að sjálfstæðismenn eru ekki meðflutningsmenn þessarar ágætu og þörfu tillögu. Þegar hún var komin á lokastig voru sjálfstæðismenn, með Vilhjálm Egilsson í fararboroddi, búnir að leggja drög að till. til þál. sem var mjög svipaðs efnis þótt þar væru áherslur kannski örlítið aðrar. Því varð það sameiginleg niðurstaða að rétt væri að leggja þáltill. báðar fram.
    Þessi þáltill. miðar að því, eins og ég sagði áðan, að bæta og styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og þá einkum og sér í lagi þeirrar greinar sem er mikilvægust í íslensku atvinnulífi, sjávarútvegsins. Ég er mjög sammála flm., hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrími J. Sigfússyni, að því fer víðs fjarri

að við höfum fullnýtt okkar sjávarauðlind. Við eigum eftir að nýta hana mikið. Við eigum að líta svo á að nýting auðlindarinnar gangi bæði til þess að nýta sem best aflann sem úr hafinu fæst og ekki síður til þess að nýta aðstöðu okkar til að framleiða það sem þarf til að ná fiskinum úr sjónum, þ.e. eiga ríkari þátt í því að framleiða fjárfestingarvörur sjávarútvegsins og allan búnað sem hann þarf til að sjávarútvegur gangi vel.
    Hvernig getum við til lengri tíma lagt drýgstan og bestan grunn að því að auka samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs? Ég held að við gerum það með því að skapa eins konar deiglu fyrir framfarir. Afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu geta verið með ýmsum hætti. Allt of oft eru afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu hérlendis í því formi að það grípur beint inn í starfsemi fyrirtækjanna, eins konar björgunaraðgerðir sem eru iðulega í gangi. Og ég skal ekki neita því að oft hefur aðstaðan verið slík að það kann að vera að mönnum hafi fundist nærtækast að grípa með beinum hætti inn í rekstur fyrirtækja með sértækum aðgerðum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það besta sem ríkisvaldið getur gert fyrir atvinnulífið sé að skapa skilyrði fyrir samstarf atvinnufyrirtækja og rannsóknastofnana. Skapa deiglu fyrir framfarir. Ég held að það sem mestu skiptir fyrir samkeppnishæfni þjóða sé fyrst og fremst að efla með þeim hæfileika til aðlögunar. Þar með er myndaður grundvöllur til sóknar og nýsköpunar í atvinnulífinu.
    Þjóðir eiga að tefla fram á alþjóðlegu viðskiptasviði í krafti sérstöðu sinna og sérstaða okkar Íslendinga er að finna í gjöfulum fiskimiðum, þessari náttúruauðlind sem einkennir atvinnulíf okkar, og það er á þessu sviði sem við eigum að styrkja okkar samkeppnisstöðu öðru fremur.
    Þessi tillaga miðar að því að byggja upp þekkingu, vísindalega þekkingu og tæknilega færni, á svæði sem gefur mjög mikla möguleika til þess. Það er lagt til í tillögunni að efla Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið sem miðstöð fræðslu og rannsókna á sviði sjávarútvegs í krafti þeirrar aðstöðu sem er fyrir hendi á Eyjafjarðarsvæðinu, í krafti þess að þar eru öflug sjávarútvegsfyrirtæki á mjög mörgum sviðum. Þar eru margar tegundir af sjávarútvegsfyrirtækjum reknar og þar er einnig nokkuð öflugur þjónustuiðnaður við sjávarútveginn. Þarna er sem sagt verið að leggja grundvöll að því að stefna saman þeirri reynslu sem er í atvinnurekstrinum og þeirri tæknilegu færni sem þar er, vísindalegri þekkingu, hagfræðilegum upplýsingum sem eru innan fræðastofnana, og er ég þá fyrst og fremst að tala um Háskólann á Akureyri, og þjónustu sem sinnir báðum þessum greinum atvinnulífsins. Ég vil nota þetta tækifæri hér í upphafi umræðunnar um þessa þáltill. til þess að lýsa ánægju minni með tillöguna og vænti þess að hún fái jákvæðar undirtektir hér. Ég held að með henni og öðru frumkvæði í þessa átt sé verið að leggja grundvöll að styrku atvinnulífi og við séum þar með að leggja verulegan skerf til framtíðaruppbyggingar íslensks atvinnulífs og bættrar stöðu Íslendinga.