Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

97. fundur
Mánudaginn 09. mars 1992, kl. 15:42:00 (4101)


     Steingrímur Hermannsson :
    Herra forseti. Ég mun ljúka máli mínu fyrir kl. 4. Ég vil byrja með því að fagna þeirri ætlan sem kemur fram í þessu frv. að setja heilsteypta löggjöf um veiðar og meðferð skotvopna. Mikil þörf er á því. Hins vegar hlýt ég að taka undir ýmislegt sem komið hefur fram hjá ræðumönnum á undan. Ég óttast að margt af því sem hér er ætlað að gera sé illframkvæmanlegt og muni a.m.k. krefjast slíks eftirlits að varla munu tök á því. Ég ætla ekki að minnast á mörg atriði og ekki að endurtaka það sem hér hefur komið fram en ég vil benda á t.d. atriði eins og í 14. lið 9. gr. Þar segir, með leyfi forseta, að óheimilt sé að nota ,,hálfsjálfvirk eða sjálfvirk skotvopn með skothylkjahólfum sem taka fleiri en tvö skothylki.``
    Ef ég veit rétt þá er þetta þegar í lögum og ég man ekki betur en ég hafi staðið að því með öðrum ágætum fyrrv. þingmanni að koma þessu í lög en ég held að þetta sé alls ekki framkvæmt. Ég veit ekki betur en fimm skota sjálfvirkar haglabyssur séu afar algengar og jafnvel algengari en þær sem hér er ætlast til að nota. Ég er mjög hlynntur þessu ákvæði. Ég tel að ekki eigi að leyfa sjálfvirkar fjölskotabyssur en ég vildi gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi kynnt sér það hvernig eftirlit er í dag með notkun slíkra skotvopna. Mjög mörg leyfi hljóta að vera gefin út og í fullu gildi fyrir slíkum skotvopnum.
    Þá vil ég nefna 17. lið þar sem bannað er að nota vélknúin farartæki, ,,nema báta á sjó til fuglaveiða enda gangi þeir ekki hraðar en níu sjómílur meðan á veiði stendur. Vélknúin farartæki á landi má nota til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegaslóðum. Skotvopn skulu vera óhlaðin meðan á akstri stendur. Þau skulu einnig vera óhlaðin nær vélknúnu farartæki á landi en 50 metra.``
    Þetta er afar nauðsynlegt ákvæði en hvernig er ætlunin að fylgjast með þessu? Við sem stundum rjúpnaveiði sjáum för eftir vélknúna sleða þvers og kruss um landið og við sjáum för eftir fjórhjól út um allt. Á þessum tækjum er farið á staði þar sem fuglinn var í raun friðaður áður og hafði a.m.k. friðland. Ég hef sjálfur orðið vitni að því að sjá unga menn á slíkum sleða skjótandi af sleðanum á fullri ferð og er það náttúrlega alger óhæfa. Ég spurði að því þar hvort þetta væri ekki stöðvað og menn ypptu bara öxlum. Hver á að stöðva þetta? Hvar er sú lögregla sem gæti fylgst með slíku? Ég er þessu ákvæði afar hlynntur, en ég vildi gjarnan fá að vita hjá hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst framkvæma þetta eftirlit. Það verður fljótlega að engu ef svona framferði líðst áfram. Þetta verður að stöðva. Að vísu er refsiákvæði hér í en þau þurfa að sjálfsögðu að vera afar ströng og kannski strangari en hér kemur fram. Þessu vil ég fagna en ég spyr um framkvæmd.
    Ég er einnig sammála ákvæðinu um veiðikortin. Það er rétt að menn hafi veiðikort og ég tel ekki eftir mér að greiða smágjald sem á m.a. að fara í það eftirlit og rannsóknir sem fram þurfa að fara. En í þessari grein eru nokkur atriði sem komu mér dálítið á óvart. Hér stendur, með leyfi forseta: ,,Á veiðikorti skal getið nafns handhafa, svæðis sem kortið gildir á, gildistímabils, tegunda og fjölda dýra af hverri tegund sem viðkomandi hefur leyfi til að veiða.`` Þetta er orðið dálítið viðamikið því að mér skilst að hér séu fjölmargar dýrategundir aðrar en rottur og mýs sem eru undanþegnar og það er nú út af fyrir sig gott. Fjölmargar dýrategundir og fjölmargir fuglar eru samkvæmt þessu í raun réttdræpir árið um kring. Ekki getur verið ætlunin að setja á veiðikort hve marga máva einhver má skjóta eða jafnvel hve margar rjúpur? Eða er það ætlunin? Er ætlunin að setja á hámark sem menn mega skjóta af slíkum nytjafuglum? Út af fyrir sig teldi ég þetta vel koma til greina og víða þar sem ég þekki til erlendis er fjöldi slíkra fugla takmarkaður eins og fjöldi gæsa. Ég hef sjálfur farið á gæsaveiðar í Bandaríkjunum og þar beið fulltrúi fógeta á veginum og menn urðu að stoppa og sýna í bílinn hve margar gæsir þeir voru með. Þar voru bara leyfðar tvær, svo ég nefni það til fróðleiks. En er ætlunin að gera þetta hér? Ekki þýðir að setja þarna í svona ákvæði. Ef ætlunin er að takmarka fjölda, við skulum segja gæsa og rjúpna sem eru helstu nytjafuglar sem hér eru veiddir, þá vildi ég gjarnan vita það og ef ekki er ætlunin að takmarka fjölda, hvers vegna er þá þetta ákvæði í lögum?

    Sömuleiðis um svæðið. Hér fara menn náttúrlega til veiða um land allt. Stundum er betri veiði norðan lands en sunnan og menn fara langar leiðir til veiða. Ég spyr hvort þörf sé á því hér á landi að takmarka viss svæði? Menn þurfa vitanlega eftir sem áður að fá leyfi hjá landeigendum að sjálfsögðu og það kemur fram. Mér finnst þetta ákvæði um svæðið óþarft og um fjölda dýra ef það er ekki ætlunin að takmarka fjölda sem skjóta má en eins og ég hef þegar tekið fram finnst mér það vel koma til greina.
    Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að fara að endurtaka það sem ýmsir hafa sagt. Ég tek undir að það er náttúrlega varla rétt að setja í lög ákvæði eins og ,,sé þess nokkur kostur`` o.s.frv., eins og segir um hvítabirnina, skuli nota til þess riffil af stærðinni cal. 243 eða stærri, sem að mínu mati getur verið nógu stór ef góð hleðsla er notuð, en spurning hvort á að setja slíkt í lög. Og eitthvað var það nú fleira sem ég hnaut um.
    Í 19. gr. segir: ,,Á takmörkuðum svæðum þar sem andavarp er mikið``, hvað þýðir þetta á takmörkuðum svæðum? Hvað er takmarkað svæði stórt svæði? Tökum svæði eins og Arnarvatnsheiðina. Varla er það nú takmarkað svæði. Ég held að svona ákvæði sé afar erfitt í túlkun og framkvæmd, en eins og ég segi hefur hér verið bent á fjölmargt fleira sem eins og ég hef skilið er ekki til þess að torvelda framgang málsins almennt séð því að ég held að menn hljóti að fagna því að fá skynsamlegar reglur um veiðar og meðferð skotvopna, heldur eru þessar athugasemdir gerðar til að bæta þau lög sem frá þessu mega koma.