Breytingar á barnabótum og sjómannaafslætti

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 13:39:00 (4106)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég vildi beina máli mínu til hæstv. fjmrh. og spyrja hann um það hvort til greina komi, í þeim viðræðum sem nú eiga sér stað milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar um ríkisfjármál, að ríkisstjórnin falli frá þeirri sérstöku skattahækkun sem varð á barnafólki með miðlungstekjur og hærri tekjur og á sjómönnum. Hvort ríkisstjórnin sé tilbúin að falla frá þessari sérstöku og óréttlátu skattahækkun sem átti sér stað og taka upp í staðinn almenna skattahækkun sem byggir ekki á því að taka sérstaklega út til skattlagningar barnafólk og sjómenn.