Breytingar á barnabótum og sjómannaafslætti

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 13:42:00 (4108)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svarið. Ég skil svar hans svo að hann sé ekki tilbúinn til að fallast á að skattheimta ríkisins minnki enda lá það ekki í minni fyrirspurn. Ég skil afstöðu hæstv. fjmrh. í þeim efnum og áhuga hans á því að halda ríkisfjárhallanum innan þeirra marka sem samrýmast markmiðum í þjóðarbúskapnum. En ég skildi svar hans svo að ríkisstjórnin sé tilbúin til leiðréttinga á þessu sviði og ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. fjmrh. Ég skildi orð hans svo að í stað þeirrar skattheimtu sem þarna átti sér stað --- hvort sem við verðum sammála um að hér sé um skattheimtu að ræða eða ekki, þá er það ljóst að þetta felur í sér aukin útgjöld fyrir þessar fjölskyldur --- sé ríkisstjórnin tilbúin til að leiðrétta þá ósanngirni sem þarna átti sér stað og ég fagna því sérstaklega að aðilar vinnumarkaðarins skuli geta komið því til leiðar og er ánægjulegt til þess að vita að þeim skuli takast það sem stjórnarandstöðunni tókst ekki, því miður, hér á Alþingi í vetur.