Breytingar á barnabótum og sjómannaafslætti

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 13:44:00 (4109)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Til að fyrirbyggja allan misskilning, því hv. 1. þm. Austurl. lagði nokkuð djúpan skilning í mitt mál áðan og kannski annan en ég hefði kosið, þá vil ég taka það fram sérstaklega að ekki verður um það að ræða í samningum við ASÍ, BSRB, Vinnuveitendasambandið eða nokkra aðra að breyta skattkerfinu eins og hv. þm. gaf í skyn að þeim hefði tekist að ná fram í samningaviðræðum við ríkisstjórnina, heldur er einungis um það að ræða að hugsanlegt er að skerðing á barnabótum verði með öðrum hætti en nú er. Til greina kemur t.d., að óskoðuðu máli tek ég fram, að færa bæturnar úr því sem nú eru kallaðar barnabætur, alveg yfir í barnabótaauka sem hefur það í för með sér að sumir, þeir tekjuhærri, fengju ekkert í sinn hlut en þeir tekjulægri fengju meira. Slíkar tilfærslur má að sjálfsögðu ræða en þær tilfærslur mega ekki kosta ríkissjóð nokkurn skapaðan hlut enda er það yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að það eigi að draga úr hallanum. Þarf ég ekki að fara aftur með þá ræðu fyrir hv. þm. sem kann hana áreiðanlega mjög vel og fer áreiðanlega með hana bæði kvölds og morgna eins og annað gott sem frá hæstv. ríkisstjórn kemur.