Landanir erlendra skipa í íslenskum höfnum

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 13:45:02 (4110)

     Össur Skarphéðinsson :
    Frú forseti. Spurningu minni er beint til hæstv. sjútvrh.
    Lögin frá 1922 um rétt til fiskveiða í landhelgi hafa í gegnum tíðina verið túlkuð svo af sjútvrn. að erlendum skipum er að jafnaði bannað að landa afla sínum í íslenskum höfnum. Í lögin var þó bætt ákvæði 1969 sem gefur ráðherra heimild til að veita undanþágur frá banninu svo fremi þær séu bundnar ákveðnum landshlutum. Þetta ákvæði hefur m.a. verið notað til að veita grænlenskum skipum leyfi til að landa afla sínum hér.
    Nú hefur það gerst ítrekað að ráðuneytið hefur hafnað beiðni erlendra skipa til að landa rækjuafla sínum í Hafnarfirði þrátt fyrir fyrrnefnt heimildarákvæði. Það er jafnframt vitað að einir átta þýskir togarar frá vinabæ Hafnarfjarðar, Cuxhaven, stunda þorskveiðar við Grænland samkvæmt sérstökum samningi Grænlendinga og Evrópubandalagsins. Fyrir liggur að þeir mundu gjarnan vilja landa aflanum í Hafnarfirði, ef leyfi lægju fyrir, til sölu á fiskmörkuðum í Hafnarfirði og á Suðurnesjum. Í ljósi hins alvarlega atvinnuástands í Reykjanesi spyr ég því sjútvrh. hvort hann sé reiðubúinn að beita heimildarákvæðinu frá 1969 til að heimila um tiltekinn tíma þessum erlendu skipum að landa afla sínum í kjördæminu.