Landanir erlendra skipa í íslenskum höfnum

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 13:49:00 (4112)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. sjútvrh. orðaði það svo áðan að ekki væri hægt að víkja lögunum til hliðar fyrr en Alþingi væri búið að breyta þeim. Nú er það svo að sú túlkun, sem sjútvrn. hefur beitt, gerir m.a. þessum skipum kleift að koma hingað inn og kaupa vistir og þar með er vitaskuld búið að bregða frá þeirri túlkun sem sjútvrh. hefur í gegnum tíðina notað. Ég spyr: Fyrst skipin mega koma hingað inn til þess að kaupa vistir og er þannig auðveldað að halda áfram veiðum sínum utan lögsögunnar, hvers vegna þá ekki að leyfa þeim líka að landa afla sínum hérna?
    Það er líka vert að það komi fram að sá rækjuafli, sem um er deilt, kemur nákvæmlega úr sömu stofnum og hin grænlensku skip eru að veiða þannig að ég skil ekki alveg þessa afstöðu ráðherrans. Það liggur fyrir að þessar veiðar munu verða stundaðar hvort sem við veitum þessi leyfi eða ekki og spurningin er aðeins: Getum við notað viðskipti við skipin til þess að bæta atvinnuástand í þessu kjördæmi?