Reglugerð um ábyrgðasjóð launa og skyldusparnaður

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 13:55:01 (4118)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. félmrh. og inna ráðherrann eftir því hvenær megi vænta þess að sett verði reglugerð um ábyrgðasjóð launa. Ég vil jafnframt spyrja hæstv. ráðherra að því hvort ráðherrann hafi tekið ákvörðun um að skyldusparnaður verði með þriggja mánaða ríkisábyrgð, sem hægt er að gera með útgáfuákvæðum í reglugerðinni. Ég vil enn fremur spyrja ráðherrann að því hvort hún sé sammála mínum skilningi á núverandi stöðu varðandi innheimtu skyldusparnaðar, eftir að lögin tóku gildi 1. mars en áður en reglugerðin hefur verið sett, að það sé engin ríkisábyrgð á skyldusparnaði.