Reglugerð um ábyrgðasjóð launa og skyldusparnaður

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 13:56:00 (4119)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Eftir að breytt lög höfðu verið samþykkt á Alþingi varðandi ríkisábyrgð á launum óskaði ég eftir tilnefningu aðila vinnumarkaðarins, þ.e. ASÍ og VSÍ í stjórn ábyrgðasjóðs launa. Aðilar vinnumarkaðarins, ASÍ og VSÍ, óskuðu eftir því að þeir fengju frest til að tilnefna í stjórn sjóðsins og vildu taka það mál inn í kjarasamningaviðræður. Ég hef sett reglugerð vegna ábyrgðasjóðsgjaldsins sem hefur verið ákveðið 0,2%. Ég hef skipað til bráðabirgða sjóðstjórn sem er skipuð af aðilum innan ráðuneytisins þar til fyrir liggur tilnefning frá aðilum vinnumarkaðarins. Þessi sjóðstjórn gerði tillögu um þetta ábyrgðagjald sem ég hef fallist á.
    Varðandi réttindamálin hefur ekki enn verið sett reglugerð um þau og ég tel rétt að bíða með að setja slíka reglugerð þar til aðilar vinnumarkaðarins hafa tilnefnt í sjóðstjórnina.
    Varðandi skyldusparnaðinn lít ég svo á að skyldusparnaður teljist til vinnulaunakrafna og það sé ábyrgð á honum.