Hjúkrunarrými fyrir aldraða og St. Jósefsspítali í Hafnarfirði

98. fundur
Þriðjudaginn 10. mars 1992, kl. 13:59:00 (4121)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín er til hæstv. heilbrrh. Vegna sparnaðaraðgerða í heilbrigðisgeiranum hefur leguplássum fyrir aldraða og sjúka fækkað í Reykjavík um 53 pláss, með lokun B-6 álmu Borgarspítalans, fækkun um sjö sjúklinga á B-4 álmu og lokun Hvítabandsins svo eitthvað sé nefnt. Því er spurningin: Hvert verður þessum öldruðu sjúklingum beint og á að koma til móts við þessa þörf á öðrum sjúkrastofnunum hér í Reykjavík og þá hvaða sjúkrastofnunum? Og í framhaldi af því, hvað verður um St. Jósefsspítala í Hafnarfirði? Verður þar hægt að taka á móti hvíldarinnlögnum í sumar?